14. febrúar 2022
Hell­isheið­in oft erfið við að etja

Vegurinn yfir Hellisheiði er umferðarþungur sem gerir vetrarþjónustu hans erfiðari en ella. Í myndbandi sem tekið var upp eftir óveðrið mánudaginn og þriðjudaginn 8. og 9. febrúar síðastliðinn koma fram þær krefjandi aðstæður sem Vegagerðin og verktakar eiga við að etja við að halda þessari fjölförnu leið opinni á snjóþungum vetrum.

„Hellisheiðin er alveg sérstök því bæði Reykjanesfjallgarðurinn og Hengillinn draga til sín úrkomu og á veturna snjókomu. Þegar blæs að suð-austri eða austri verður miklu, miklu mun meiri úrkoma þar en til dæmis hér í bænum,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í myndbandinu og bendir á að mikil áraskipti séu á því hve oft þurfi að loka Hellisheiðinni. Veturinn 2019 til 2020 hafi til dæmis verið erfiður og þá hafi vegurinn teppst 22 sinnum.

Hann segir ekki einfalt mál að moka veginn yfir Hellisheiði þegar mikið snjóar. „Jafnvel þó að vetrarþjónustan og tækin nái að halda veginum opnum þá myndast ruðningar í vegöxlunum og þegar þeir eru orðnir tiltölulega háir þá bara skefur á milli þeirra og þá ráða menn ekki lengur neitt við neitt. Þá er nauðsynlegt að menn fái frið þegar að veðrið lagast til þess að moka út og jafna út þessa ruðninga.“

Í myndbandinu er einnig rætt við Grétar Einarsson verkstjóri á Suðursvæði Vegagerðarinnar. Hann segir mesta áherslu lagða á að tryggja velferð vegfarenda. „Oft hefur komið fyrir að teppast bílar á heiðinni,“ segir hann en víða er vegurinn þröngur, sérstaklega á einbreiða hlutanum þar sem víravegrið er milli akreina. „Þá dugir að einn bíll sé stopp og þá er öll halarófan stopp,“ lýsir hann og bendir á að oft fari tíu til fjórtán þúsund bílar um heiðina hvern dag og því geti myndast all mikil ringulreið ef umferðin stoppar.

„Við þurfum oft að taka ákvarðanir sem mörgum líkar ekki. Fólk horfir í vefmyndavélar og einhverjar sögusagnir verða til um að það sé jafnvel bara fínt veður uppi og enginn snjór en svo eru kaflar þar sem er mikill snjór, skefur stöðugt og er blint.“

Helgi Björnsson vélamaður tekur undir með Grétari. „Hellisheiðin er eitt veðravíti. Skafrenningur hér og skafrenningur annars staðar er nú ekki það sama,“ segir hann og oft kemur hann að tveggja til þriggja metra háum sköflum á veginum sem eru hundrað til þrjú hundruð metra langir. „Skaflarnir eru þannig að það fer enginn venjulegur bíll í gegnum þá. Oft hefur maður verið sóttur á vélsleða og skutlað upp eftir til þess að komast í græjurnar.“

 

Snjóblásari að störfum á Hellisheiði þriðjudaginn 8. febrúar 2022.

Snjóblásari að störfum á Hellisheiði þriðjudaginn 8. febrúar 2022.