Haustið minnir á sig
Það er byrjað að hausta og kólna í veðri, ekki síst á næturnar. Því má almennt búast við hálku og hálkublettum á vegum landsins á nóttunni og fram eftir morgni. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum um veður og færð á umferdin.is, vera búnir eftir aðstæðum og aka með gát.
Næstu daga varar Vegagerðin sérstaklega við næturfrosti og varasömum aðstæðum á fjallvegum aðfaranætur föstudags, laugardags og sunnudags og fram á morgun. Líklegt er að hálka eða hálkublettir verði á Norðurlandi, Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Á sunnudag er spáð hlýrra veðri.
Einnig má búast við slydduéljum á föstudag og laugardag, einkum fyrir norðan og norðaustan, og er mögulegt að krapi myndist á fjallvegum aðfaranótt föstudags og að morgni laugardags.