Haustið minnir á sig
Það er byrjað að hausta og kólna í veðri, ekki síst á næturnar. Því má almennt búast við hálku og hálkublettum á vegum landsins á nóttunni og fram eftir morgni. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum um veður og færð á umferdin.is, vera búnir eftir aðstæðum og aka með gát.
Næstu daga varar Vegagerðin sérstaklega við næturfrosti og varasömum akstursaðstæðum á fjallvegum aðfaranætur föstudags, laugardags og sunnudags og fram á morgun. Líklegt er að víða verði hálka eða hálkublettir, sérstaklega á Norðurlandi, Norðvesturlandi og Norðausturlandi þar sem hitastigið fer niður fyrir frostmark að næturlagi. Á sunnudag er þó útlit fyrir hlýrra veður og getur það létt til á vegum þegar líður á daginn.
Einnig má búast við slydduéljum á föstudag og laugardag, einkum á norðan- og norðausturlandi. Þar getur slydduhríð dregið úr skyggni og gert akstur erfiðan, auk þess sem krapi gæti myndast á fjallvegum aðfaranótt föstudags og að morgni laugardags. Þar sem slíkar aðstæður geta komið skyndilega upp er mikilvægt að vegfarendur geri ráð fyrir hægari ferð og hafi huga að breyttum vegaaðstæðum.
Vegagerðin hvetur ökumenn til að fylgjast vel með færð og veðurspám áður en lagt er af stað, sérstaklega ef ferðalög liggja yfir fjallvegi, og gera ráðstafanir eins og að hafa vetrardekk í lagi, auk þess að sýna sérstaka aðgát á leiðum sem liggja um heiðar þar sem veður og færð geta breyst hratt.