20. maí 2025
Göngu­brú á Sæbraut komin á sinn stað

Ný göngu- og hjólabrú var hífð í heilu lagi á Sæbraut í gærkvöldi og komið fyrir á sínum stað á stigahúsum sem reist hafa verið við Dugguvog og Snekkjuvog. Veðrið var eins og best verður á kosið en vindur mátti ekki fara yfir 5 m/s því þá hefði þurft að fresta verkinu. Um 20 manns komu að þessari vinnu sem gekk mjög vel fyrir sig. Vonast er til að brúin verði tekin í notkun um miðjan júní. Á sama tíma var nýjum hæðaslám komið fyrir beggja vegna brúarinnar.

Brúin er um 28 metra löng og vegur um 30 tonn. Hún mun standa þar til framkvæmdir vegna Sæbrautarstokks hefjast en þá er vonast til að hægt verði að endurnýta hana á öðrum stað. Brúin var flutt frá athafnasvæði Ístaks við Esjumela á flutningavagni í lögreglufylgd. Loka þurfti hluta Sæbrautar meðan vinnan við að koma henni fyrir á sinn stað stóð yfir.

Umferðaröryggi bætt verulega

Brúnni er ætlað að bæta umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli nýrrar Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir skólabörn í Vogaskóla, en hún er staðsett um miðja vegu milli gatnamóta Sæbrautar við Súðavog annars vegar og Kleppsmýrarvegs hins vegar. Með henni verður til ný gönguleið milli Dugguvogs við Tranavog og Snekkjuvogs.

Unnið við stigahús

Nú þegar brúin er komin á stað heldur vinna við stigahúsin áfram. Gengið verður frá tengingum milli brúar og stigahúsa, sett upp lýsing og myndavélakerfi, gengið frá jarðvegi við stigahúsin og göngu- og hjólastígar malbikaðir. Lyftur verða síðan settar upp við báða brúarenda á næstu vikum.

Nýjar hæðatakmarkanir

Með nýrri brú koma nýjar hæðatakmarkanir á Sæbraut milli Skeiðarvogs og Súðarvogs. Framvegis verða eftirfarandi hæðatakmörk á þessum kafla:

· Fríhæð undir viðvörunarslá er nú 4,8 m

· Fríhæð undir skiltabrú verður 5,5 m

· Samkvæmt reglugerð er hámarkshæð ökutækja 4,2 m (-4,4 m)

Vegagerðin beinir þeim tilmælum til verktaka og flutningafyrirtækja að kynna hæðatakmarkanir fyrir sínu starfsfólki. Ástæða er til þess að hvetja ökumenn stærri bíla til að setja niður palla á vörubílum, pakka saman bílkrönum og svo framvegis, svo ekki komi til óhappa eða slysa vegna hæðatakmarkananna.

Framkvæmdin er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og er fjármögnuð af Samgöngusáttmálanum.

Vegagerðin hefur yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.

Vel gekk að koma brúnni á sinn stað.

Vel gekk að koma brúnni á sinn stað.

Brúin var flutt frá athafnasvæði Ístaks við Esjumela á flutningavagni í lögreglufylgd.

Brúin var flutt frá athafnasvæði Ístaks við Esjumela á flutningavagni í lögreglufylgd.

Brúin mun bæta umferðaröryggi.

Brúin mun bæta umferðaröryggi.

Um 20 manns komu að þessu verkefni.

Um 20 manns komu að þessu verkefni.

Brúin er um 28 metra löng og vegur um 30 tonn.

Brúin er um 28 metra löng og vegur um 30 tonn.

Búið er að segja upp skiltabrýr.

Búið er að segja upp skiltabrýr.