Góður gangur í framkvæmdum á Dynjandisheiði
Framkvæmdir við þriðja og síðasta áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði hófust í vor og eru komnar á gott skrið. Næstu vikur og mánuði verður unnið við sprengingar á efsta hluta vegkaflans, sem er í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Einnig verða sett niður stálplöturæsi í Dynjandisá. Gert er ráð fyrir að unnið verði við verkið í allan vetur, eftir því sem veður leyfir.
Í vor var hafist handa við að fjarlægja steypta brú yfir ánna Svínu, auk þess að sprengja klöpp í vegstæði. Í maí og júní var unnið við Dynjandaveg, sem er 800 m langur og liggur inn að fossinum Dynjanda, og sett voru tvö stálræsi í ánna Svínu en þau eru 220 cm og 240 cm að stærð. Þá var áfram unnið við sprengingar í vegsvæði og í námu.
Í júlí var unnið að mölun á klæðingarefni og haldið áfram með fyllingar í Dynjandavegi. Í lok þess mánaðar var búið að sprengja um 30 þúsund rúmmetra, fylling komin í Dynjandaveg og auk þess var unnið við fyllingar á um 400 m kafla á Dynjandisheiði.
Verkið hélt áfram og í ágúst var búið að sprengja um 40 þúsund rúmmetra, bæði í námu og í vegsvæði. Þá var komin fylling í Dynjandaveg og byrjað að keyra út styrktarlag á hluta vegarins. Unnið var á um 1000 m kafla á Dynjandisvegi og undirbúningur hófst á efsta hluta vegkaflans.
Þegar framkvæmdir hófust voru sex starfsmenn á svæðinu og vinnutæki samanstóðu af tveimur beltavélum, tveimur búkollum, einum trukki, borvagni og jarðýtu. Í sumar hefur bæst við mannskapinn og tækjum fjölgað. Von er á fleira starfsfólki og tækjum á næstu vikum.
Verkið fór aðeins seinna af stað en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það gekk rólega fyrstu mánuðina en nú er góður gangur í verkinu.
Verktaki er Borgarverk ehf. og Verkís sér um eftirlit.
Vegavinna í Dynjandisvogi, júní 2025.
Næstu mánuði verður unnið við sprengingar í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli.
Vegavinna í Dynjandisvogi fyrr í sumar.
Unnið er að endurbótum á veginum inn að Dynjanda. Myndin er tekin í sumar.