1. september 2022
Fyrsti fundur verk­efnis­stjórnar Sunda­brautar

Innviðaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn með undirbúningi Sundabrautar og var fyrsti fundur hennar haldinn þriðjudaginn 30. ágúst síðastliðinn.  Í verkefnisstjórninni sitja fulltrúar Vegagerðarinnar, Innviðaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi framkvæmdarinnar en stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist 2026 og að Sundabraut verði tekin í notkun árið 2031.

Næstu skref undirbúningsins er að vinna að mati á umhverfisáhrifum, frekari útfærslu valkosta og nauðsynlegu samráði við hagsmunaðila.

Verkefnisstjórnina skipa:

  • Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar – formaður
  • Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar
  • Árni Freyr Stefánsson – fulltrúi innviðaráðuneytis
  • Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar – fulltrúi Reykjavíkurborgar
  • Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi – fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vegagerðin hefur auglýst eftir verkefnastjóra Sundabrautar sem mun vinna fyrir verkefnisstjórnina að nauðsynlegum undirbúningi. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 12.september.

Starfslýsing verkefnastjóra

Starf verkefnastjóra felst í stjórnun undirbúnings framkvæmda, þ.m.t. gerð tíma-, kostnaðar- og viðskiptaáætlana, og undirbúningi útboða. Verkefnastjóri starfar fyrir verkefnisstjórn með undirbúningi Sundabrautar, sem skipuð verður fulltrúum Vegagerðarinnar, innviðaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Verkefnastjórinn þarf m.a. að vinna að samskiptum við hagsmunaaðila í tengslum við undirbúning Sundabrautar, gerð samninga og sinna þeim verkefnum sem nauðsynlegt er.

Á næstu misserum verður unnið að umhverfismati framkvæmdarinnar, samráði við nærumhverfi og undirbúningi nauðsynlegra breytinga á skipulagsáætlunum með það að markmiði að hægt sé að hefja framkvæmdir við Sundabraut eigi síðar en árið 2026 og að þeim verði lokið árið 2031.