Fyrsta steypa Ölfusárbrúar
Í nýútkomnum Framkvæmdafréttum er sagt frá því að fyrsta steypa í sjálfri Ölfusárbrú fór fram aðfaranótt 16. október síðastliðinn. Steypt var undirstaða landstöpuls vestan megin við Ölfusá en alls fóru um 400 rúmmetrar af steypu í verkið.

Verkið var unnið um nótt til að komast hjá umferðartöfum og tryggja jafnt flæði steypunnar. Mynd: Anton Brink
„Við ákváðum í samráði við steypustöðina BM Vallá að vinna verkið yfir nótt, en stöðin útvegaði steypuna í verkið. Það var gert til að tryggja jafnt flæði steypunnar á staðinn en með því að vinna að næturlagi var hægt að komast hjá umferðartöfum. Með þessu móti var líka hægt að komast hjá því að trufla daglega þjónustu steypustöðvarinnar við aðra viðskiptavini,“ segir Skúli Sigvaldason, staðarstjóri ÞG Verks, sem er verktaki framkvæmdarinnar Hringvegur (1) um Ölfusá.
„Við hófumst handa klukkan 3 við undirbúning og byrjuðum að steypa klukkan 4. Við vorum með eina steypudælu og gátum haft tvo bíla aftan í henni í einu. Við vorum sex starfsmenn frá ÞG Verk þegar mest var og svo auðvitað allir steypubílstjórarnir sem biðu í röðum og rannsóknarmenn frá BM Vallá sem tóku sýni úr steypunni með reglulegu millibili til að tryggja full gæði.“
Steypuvinnan við landstöpulinn stóð til klukkan 15 daginn eftir og hafði þá verið dælt um 400 rúmmetrum af steypu í hann. Skúli útskýrir að þegar massinn sé svona mikill skipti máli að ekki myndist of hár hiti í steypunni. Kjarninn hitni um of ef ekki eru gerðar ráðstafanir. Því höfðu verið settir 1500 metrar af kælirörum í undirstöðuna sem köldu vatni var dælt í gegnum í fjóra daga.

Steypubílarnir bíða í röðum eftir því að dæla steypu í undirstöður Ölfusárbrúar. Mynd: Anton Brink
Framkvæmdir við verkið Hringvegur (1) um Ölfusá eru í fullum gangi. Helstu verkefni síðustu vikur hafa verið að steypa þrifalag fyrir undirstöður brúarinnar á austurbakka árinnar og undirbúa aðrar undirstöður.
Í Efri-Laugardælaeyju er jarðvinnu lokið. Unnið var við klappskeringar fyrir undirstöður turnsins sem reistur verður í eyjunni og bera mun uppi brúargólf stagbrúarinnar.
Unnið er við jarðvegsskipti í vegstæðinu frá austurbakka Ölfusár og að fyrirhuguðum mislægum vegamótum Hringvegar. Á þessum kafla er uppúrtekt lokið og fylling undir styrktarlag langt komin.
Unnið er við byggingu vegbrúarinnar sem verður á mótum nýja og gamla Hringvegar austan Selfoss og járnavinna stöpla er langt komin.
Rétt vestan við ána er búið að ljúka sprengingum á klapparhafti og enn vestar er unnið við fergingar vegstæðisins yfir Hellismýri á um 700 metra löngum kafla í átt að Biskupstungnabraut. Samhliða vegagerðinni er einnig unnið við jarðvinnu fyrir lagnir veitustofnana.
ÞG-Verk hefur samið við pólsku verksmiðjuna Norvik um framleiðslu stálvirkis Ölfusárbrúar og er vinnslan þegar hafin.
Í dag starfa við framkvæmdina um 40 starfsmenn á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna. Einnig starfa við framkvæmdina hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn framkvæmdarinnar á vegum Vegagerðarinnar.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Fegurðin leynist víða, til dæmis í þessari speglun steypubíls í vatni. Mynd. Anton Brink

Steypan rennur greiðlega en alls fóru um 400 rúmmetrar af steypu í undirstöðurnar.

Rannsóknarteymi frá BM Vallá tók reglulega sýni úr steypunni til að tryggja gæði. Mynd: Anton Brink

Krana steypudælunnar er fjarstýrt.

Fyrsta steypuvinnan fór fram aðfaranótt fimmtudags við nýja brú yfir ölfusá.