15. apríl 2020
Fram­kvæmd­ir við Dýra­fjarðar­göng ganga vel

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust í júlí 2017 og síðasta haftið í göngunum, sem eru 5,6 km löng, var sprengt í apríl 2019. Síðan þá hefur verið unnið þrotlaust að því að gera göngin klár, en til stendur að opna þau á þessu ári. Vinnan hefur gengið framar vonum en veturinn auk Covid-19 hafa sett dálítið strik í reikninginn að undanförnu.

„Leiðinlegt veður í vetur hafði talsverð áhrif á vinnu, bæði vegna ófærðar og eins var á köflum erfitt að keyra inn unnu efni,“ segja þeir Guðmundur Rafn Kristjánsson á jarðgangadeild Vegagerðarinnar og Oddur Sigurðsson umsjónarmaður verksins.

Í mars bárust af því fréttir að tékkneskir og slóvenskir starfsmenn verktakans Metrostav þyrftu að halda heim vegna Covid-19. Metrostav átti þá eftir vikuverk í sprautusteypun á klæðingu, auk vinnu við neyðarrými. „Allir starfsmenn Metrostavs fóru heim fyrir utan fjóra tæknimenn sem eru á verkstað. Metrostav samdi við Íslendinga um að klára þá vinnu sem eftir var,“  segir Guðmundur og bendir á að Metrostav og Suðurverk hafi boðið sameiginlega í verkið og vinni að því saman. Reyndar búi nokkrir starfsmenn Suðurverks erlendis og séu þar um þessar mundir. Einhver afföll hafi því verið á mannafli undanfarið. Hann segir þó of snemmt að segja til um hvort veður og afleiðingar Covid-19 komi til með að hafa einhver áhrif á verklok.

Á Vestfjörðum eru heldur strangari reglur vegna Covid-19 en annars staðar á landinu. Til dæmis miðast samkomubann við fimm manns. Þetta segja þeir Guðmundur og Oddur að flæki aðeins málin og því þurfi að skipuleggja alla vinnu vel. „Það hjálpar auðvitað að vinnusvæðið í göngunum er 5,6 km langt,“ segja þeir en verktakinn hefur verið í góðu sambandi við Vinnueftirlitið við skipulagningu vinnunnar.

Í dag vinna um 25 starfsmenn á staðnum hverju sinni og tíu í vaktafríi að auki. Þegar mest var voru 50 manns á verkstað og um 20 í vaktafríi á hverjum tíma.

Áhugavert að fylgjast með framvindunni á netinu

Á vefsíðu fréttasíðunnar www.bb.is og  facebooksíðunni Dýrafjarðargöng er reglulega farið yfir hvaða verkefni hafa verið unnin. Baldvin Jón Bjarnason jarðfræðingur hjá Eflu sendir reglulega inn slíkar samantektir fyrir hönd framkvæmdaeftirlits ganganna og má sjá nýjustu færsluna hér að neðan.

Samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 13 & 14 við vinnu Dýrafjarðarganga.

  • – Klárað var að steypa síðustu neyðarrýmin og er því steypuvinnu nánast lokið. Eingöngu á eftir að steypa undirstöður undir fjarskiptamastur og fjarskiptahús í Arnarfirði og steypa vegþveranir fyrir ídráttarrör í hluta útskota.
  • – Unnið var við sprautusteypun yfir vatnsklæðingar og er stefnt að því að klára þá vinnu eftir páska.
  • – Haldið var áfram að keyra fyllingar og neðra burðarlag í veginn í göngunum. Haldið var áfram með að setja upp festingar fyrir skilti í göngunum.
  • – Haldið var áfram að leggja ídráttarrör fyrir rafmagn og stýristrengi meðfram hægri vegöxl og í tæknirýmin. Haldið var áfram með að grafa skurð fyrir 132 kV jarðstreng í vinstri vegöxl.
  • – Vinna hélt áfram við uppsetningu á búnaði í tæknirýmum og uppsetningu á festingum fyrir strengstiga og strengstiganum sjálfum sem mun liggja eftir endilöngum göngunum.

Þeir sem vilja fylgjast með framvindunni geta smellt á hlekkina hér að neðan:

Fréttasíðan BB

Facebooksíðan Dýrafjarðargöng

Hér er unnið að jöfnun á neðra burðarlagi í göngunum.

Hér er unnið að jöfnun á neðra burðarlagi í göngunum.

Uppsettur strengstigi.

Uppsettur strengstigi.