17. september 2025
Fram­kvæmda­kort Vega­gerðar­innar 2025

Framkvæmdakort Vegagerðarinnar 2025

Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta er birt eftirfarandi kort sem sýnir helstu vegaframkvæmdir Vegagerðarinnar árið 2025. Listinn er ekki tæmandi og birtur með fyrirvara um breytingar. Kortið nær ekki yfir þau verkefni sem unnin voru fyrir viðbótarfé sem Vegagerðin fékk úthlutað um mitt sumar.

Framkvæmdakort 2025 - helstu framkvæmdir

Framkvæmdakort 2025 - helstu framkvæmdir

Nýframkvæmdaverkefni

1. Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit

Í Gufudalssveit er verið að vinna að þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Um þessar mundir er verið að setja út fyllingu í þessa firði ásamt bráðabirgðabrú yfir Gufufjörð. Verktaki við þessa framkvæmd er Borgarverk ehf. og eru áætluð verklok haustið 2025.
Næsti áfangi í útboðsferli er að byggja 130 m brú á Gufufjörð og 58 m brú á Djúpafjörð. Tilboð voru opnuð í lok apríl 2025 en ekki er búið að semja við verktaka. Áætluð verklok eru í september 2026.
Síðan er áætlað að bjóða út lokaáfangann í lok árs 2025 en þar er um að ræða smíði og uppsetningu á um 250 m langri stálbogabrú yfir Djúpafjörð ásamt lokafrágangi vega um firðina. Ekki er búið að áætla endanleg verklok en verið er að horfa til loka árs 2026 eða hausts 2027.

2. Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði

Núverandi framkvæmd er lokaáfangi verksins og er um 7,2 km auk Dynjandisvegar um 0,8 km. Þessi áfangi liggur af heiðinni niður í Arnarfjörð við Dynjandisfoss. Skrifað var undir samning um verkið í mars á þessu ári. Verktaki sem mun vinna verkið er Borgarverk ehf. Áætluð verklok eru í lok september 2026.
Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.
Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðavegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd náði frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og lá um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Verklok 2. áfanga voru árið 2024.

3. Hringvegur (1) um Kjalarnes

Framkvæmdum við 1. áfanga Kjalarness lauk árið 2023. Vinna við undirbúning 2. áfanga er í gangi og stefnt að því að bjóða þann hluta út þegar fyrir liggur samþykki um það í nýrri samgönguáætlun. Verktími er áætlaður um 3 ár frá samningsundirritun við verktaka.
4. Hringvegur (1), hringtorg við Lónsveg
Stór öryggisaðgerð við innkomu inn á Akureyri og tenging við ört vaxandi hverfi í Hörgársveit. Verkið hófst um miðjan apríl og lýkur í október 2025. Þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, sveitarfélagsins Hörgársveitar og Norðurorku hf. Verkið felur í sér gerð hringtorgs við Lónsbakka, vegtenginga og stíga. Einnig gerð á nýju ræsi fyrir Lónsá sem og lagning hitaveitulagna. Verklok eru áætluð 1. nóvember 2025.

5. Norðausturvegur (85) um Brekknaheiði, Langanesvegur – Vatnadalur

Nýbygging á vegi yfir Brekknaheiði, um 1 km af veginum verður í núverandi vegstæði en heildarlengd kaflans er 7,6 km, frá Langanesvegi og að Vatnadal á Brekknaheiði. Áætluð verklok eru ágúst 2027.

6. Hringvegur um Hornafjörð

Nýbygging á 19,1 km kafla Hringvegar, 9,0 km nýrra hliðarvega auk smíði fjögurra tvíbreiðra brúa (samtals 468 m) og hringtorg við vegtengingar til Hafnar og Nesjahverfis. Verklok eru áætluð í desember 2025. Með framkvæmdinni fækkar einbreiðum brúm á Hringvegi um þrjár.

7. Hringvegur (1) um Ölfusá

Verkið snýst um færslu Hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Helstu verkþættir eru nýbygging 3,7 km Hringvegar, bygging nýrrar 330 m langrar stagbrúar yfir Ölfusá og um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gerð verða ný vegamót við Hringveg austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt. Samið var um verkið í nóvember 2024. Verklok eru áætluð í október 2028.

8. Reykjanesbraut (41) Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun

Breikkun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur. Lengd vegkaflans er um 5,6 km og er þetta eini kaflinn á Reykjanesbraut, frá Ásbraut í Hafnarfirði að Njarðvík, sem ekki hefur verið breikkaður. Góður gangur er í framkvæmdunum. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum lyki um mitt ár 2026 en líkur eru á að hægt verði að klára fyrr.

9. Vestfjarðavegur (60), Fjarðarhornsá og Skálmardalsá

Smíði tveggja steinsteyptra eftirspenntra 34 m plötubrúa yfir Fjarðarhornsá og Skálmardalsá, ásamt vegagerð við hvora brú fyrir sig, samtals um 1,8 km. Brýrnar eru beggja vegna við Klettsháls. Brúin yfir Fjarðarhornsá var kláruð í fyrra en unnið er að byggingu brúar yfir Skálmardalsá. Verklok eru áætluð í desember 2025.

10. Arnarnesvegur (411) – framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu

Nýbygging Arnarnesvegar á 1,9 km kafla milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar, þriðji áfangi. Auk vegagerðarinnar verður byggð akstursbrú yfir Breiðholtsbraut með aðskildum göngu- og hjólastíg. Byggð verður göngu- og hjólabrú yfir Arnarnesveg sem tengir stofnstíga milli Reykjavíkur og Kópavogs. Undirgöng verða gerð undir Breiðholtsbraut við Suðurfell / Jaðarsel og önnur undir Arnarnesveg við Rjúpnaveg. Hringtorg verða á mótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar og einnig á mótum Arnarnesvegar og Vatnsendavegar. Stígur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verður lagður frá Rjúpnavegi yfir í Elliðaárdal og byggja á göngu- og hjólabrú yfir Dimmu.

11. Göngu- og hjólabrú á Sæbraut – framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu

Ný göngu- og hjólabrú var sett upp yfir Sæbraut í júní milli Dugguvogar og Snekkjuvogar. Brúin er um 28 metra löng og vegur um 30 tonn. Hún mun standa þar til framkvæmdir vegna Sæbrautarstokks hefjast en þá er vonast til að hægt verði að endurnýta hana á öðrum stað.

12. Fossvogsbrú, landfyllingar og sjóvarnir – framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu

Unnið er að landfyllingum og sjóvörnum vegna fyrirhugaðrar byggingar Öldu, brúar yfir Fossvog. Fossvogsbrú er fyrsta stóra framkvæmdin í Borgarlínuverkefninu. Um er að ræða 270 m langa brú sem verður allt að 17 m breið. Hún tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavíkur með afgerandi hætti.

Stærstu tengivegaverkefnin

13. Hagabraut (286), Landvegur – Reiðholt

Styrking, breikkun og klæðing á 7,5 km kafla Hagabrautar í Rangárþingi ytra, frá Landvegi að Reiðholti. Núverandi vegur er 5-6 m breiður malarvegur sem verður breikkaður í 6,5 m með 6,3 m breiðri klæðingu og 2×10 cm malaröxlum. Verkinu skal lokið í ágúst 2026.

14. Örlygshafnarvegur (612) Hvalsker – Sauðlauksdalur og Hvallátrar

Nýbygging og endurbætur á tveimur hlutum Örlygshafnarvegar (612). Annars vegar er um að ræða endurbætur á hluta Örlygshafnarvegar (612-03/04) um Hvallátra. Lengd útboðskafla er um 1,9 km veghluti. Verkið felst í nýbyggingu vegarins, lagfæringu hans og frágangi með bundnu slitlagi með áherslu á að auka umferðaröryggi.
Hins vegar er um að ræða endurbætur á hluta Örlygshafnarvegar (612) Hvalsker – Sauðlauksdalur. Lengd útboðskafla er um 4,0 km. Verkið felst í endurnýjun vegarins, lagfæringu hans og frágangi með bundnu slitlagi. Verkinu skal lokið í ágúst 2026.

15. Grafningsvegur efri (360), Írafoss – Grafningsvegur neðri

Uppbygging, breikkun og klæðing Grafningsvegar efri (360), frá norðurenda brúar við Írafossvirkjun að vegamótum Grafningsvegar neðri. Heildarlengd útboðskaflans er 1,33 km. Verki skal lokið í ágúst 2025.

16. Steinadalsvegur (690), Vestfjarðavegur – Ólafsdalur

Endurbygging á um 6,6 km kafla á Steinadalsvegi í Dalabyggð. Um er að ræða endurbætur á núverandi vegi ásamt vegtengingum og frágangi. Verkinu skal lokið í ágúst 2026.

17. Hafnarhólmavegur (947), Ölduhamar – Höfn

Endurbygging Hafnarhólmavegar (947), á um 1,2 km kafla frá Ölduhamri að Höfn. Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar á öllum vegarkaflanum. Gerðar eru lagfæringar á plan- og hæðarlegu vegarins. Lögð verður klæðing á endurbyggðan veg. Framkvæmdir hófust í lok árs 2024 og verkinu skal lokið í júlí 2025.

18. Jökuldalsvegur (923), Arnórsstaðir – Langagerði

Endurbygging Jökuldalsvegar (923) á um 4,6 km kafla frá Arnórsstöðum að Langagerði. Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar á öllum vegkaflanum. Gerðar eru lagfæringar á plan- og hæðarlegu vegarins á köflum. Framkvæmdir hófust sumarið 2024 og verkinu skal lokið í júlí 2025.

19. Vatnsdalsvegur (722), Hringvegur – Kornsá

Verkið felst í um 13 km endurbyggingu á Vatnsdalsvegi (722) frá vestari gatnamótum Hringvegar að Kornsá. Vegurinn er allur endurbyggður í núverandi vegstæði, gerðar lagfæringar á hæðarlegu og blindhæðir fjarlægðar, lítils háttar lagfæringar verða á planlegu. Vegurinn verður styrktur til að mæta aukinni umferð og breikkaður. Búast má við umtalsverðu raski þar sem farg verður á veginum. Áætluð verklok eru haustið 2027.

20. Vatnsnesvegur (711), Kárastaðir – Skarð

Verkið felst í endurbyggingu Vatnsnesvegar (711) á um 7,1 km löngum kafla frá núverandi slitlagsyfirborði og norður fyrir Krossavallalæk. Núverandi vegur er um 4,5 – 5,5 m breiður malarvegur og verður hann breikkaður í 6,0 m breiða akbraut með bundnu slitlagi með 0,5 m breiðum öxlum. Áætluð verklok eru lok júní á þessu ári.

Viðhaldsverkefni, styrkingar og endurbætur:

21. Snæfellsnesvegur (54) vestan við Grundarfjörð, styrking og klæðing

Þurrfræsing, festun burðarlags með sementi, útlögn burðarlagsefnis og tvöföldun klæðingu á völdum kafla á Snæfellsnesvegi, vestan við Grundarfjörð. Verklok eru 1. ágúst 2025.

22. Eyrarbakkavegur (34), Stekkar – Tjarnarbyggð, styrking og malbik 2025

Styrking og malbikun á 1,7 km kafla á Eyrarbakkavegi, frá Stekkum að Tjarnarbyggð. Verkið felst í að fræsa upp núverandi slitlagi á vegunum, jafna því út og breikka veg lítils háttar og keyra að jafnaði 15 cm þykku burðarlagi yfir og leggja malbik. Einnig skal verktaki sjá um að fræsa hvinrendur í miðju. Verklok eru 25. ágúst 2025.

23. Þorlákshafnarvegur (38), Eyrarbakkavegur – Suðurstrandarvegur, styrking og malbik 2025

Styrking og malbikun á 3 km kafla á Þorlákshafnarvegi (38) frá Eyrarbakkavegi að Suðurstrandarvegi. Verki skal að fullu lokið 1. ágúst 2025.

24. Nesvegur (425), Hafnir – Hafnarsandur, styrking og breikkun

Styrking, breikkun og klæðing Nesvegar (425), frá Höfnum að Hafnarsandi. Heildarlengd útboðskaflans er um 4,9 km.

25. Hringvegur á Skeiðarár- og Breiðamerkursandi, styrking og breikkun og klæðing 2025

Fræsing, styrking, breikkun og klæðing Hringvegar á Skeiðarársandi (2,2 km kafli) og Breiðamerkursandi (2,0 km kafli). Áætluð verklok eru 1. september 2025.

26. Hvammstangavegur (72), sementsfestun.

Um er að ræða fræsun og lagfæringar á hæðarlegu vegarins ásamt því að burðarlag verður styrkt með sementi. Heildarlengd 5 km. Verklok eru sumarið 2025.

27. Hringvegur, endurbætur á vegi um Hof, Háöldu og Morsá

Styrkingar og endurbætur og öryggisaðgerðir (3. km).

Endurnýjun brúa

28. Snorrastaðavegur (5610), brú á Kaldá við Eldborg

Hönnun, framleiðsla/smíði og uppsetning nýrrar 33,2 m langrar forsmíðaðrar yfirbyggingar á brú yfir Kaldá við Snorrastaði á Snorrastaðavegi. Yfirbyggingin skal forsmíðuð og hífast, í einu lagi eða einingum, á fyrirliggjandi brúarstólpa og festast/tengjast þeim. Yfirbygging brúar skiptist í 3,0 m breiða akbraut og 1,5 m breiða gönguleið auk bríka beggja vegna fyrir H2 vegrið. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 1. október 2025.
28. Helgustaðavegur (954), ræsi/stokk í Helgustaðaá.
Stefnt er að því að rífa illa farna brú yfir Helgustaðaá og setja niður ræsi/stokk og færa vegstæði rétt ofan núverandi brúar.

Vegagerðin heldur úti framkvæmdasjá með helstu verkefnum sem eru í gangi.  Hlekkur á framkvæmdasjá 

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.