Forgangur strætó á Kringlumýrarbraut í undirbúningi
Uppbygging forgangsakreinar fyrir strætisvagna á Kringlumýrarbraut er í undirbúningi á um 500 metra kafla milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar. Kaflinn sem um ræðir er vestan megin á götunni, með akstursstefnu í suður. Einnig er gert ráð fyrir nýjum strætóstöðvum nálægt gatnamótunum við Háaleitisbraut. Vegagerðin, Betri samgöngur, Reykjavíkurborg og Strætó vinna saman að þessu verkefni.
Ferðatími styttist um 4–5 mínútur
Markmiðið með uppbyggingu forgangsakreinar á Kringlumýrarbraut er að stytta ferðatíma strætófarþega um allt að 4–5 mínútur, meðal annars fyrir þá sem eru á leið frá Borgartúni eða öðrum helstu atvinnu- og þjónustusvæðum borgarinnar. Með nýrri forgangsakrein fá strætisvagnar greiða og beina leið óháð annarri umferð og þurfa ekki að sitja fastir í umferðarhnútum á annatímum. Þetta er liður í því að gera almenningssamgöngur skilvirkari, samkeppnishæfari og aðgengilegri fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Framkvæmdirnar munu ekki rýra umferðarrými fyrir einkabíla, því akreinar fyrir almenna bílaumferð verða óbreyttar. Þess í stað verður miðeyja götunnar minnkuð til að skapa pláss fyrir nýju strætóakreinina. Með þessu er leitast við að hámarka ávinning almenningssamgangna án þess að skerða flæði bílaumferðar.
Eins og staðan er í dag fer strætó ekki þessa leið vegna þess að umferðin er of hæg á annatímum og engar biðstöðvar fyrir strætó eru á þessum kafla. Farþegar þurfa þess í stað að fara leið upp Miklubraut, fram hjá Kringlunni og svo vestur eftir Háaleitisbraut áður en beygt er norður Kringlumýrarbraut. Þessi leið er bæði krókaleið og tímafrek. Með tilkomu forgangsakreinarinnar verður leiðin mun beinari og ferðatíminn styttri, sem er mikilvægt fyrir þúsundir daglegra farþega.
Vinna við verkhönnun og útboðsgögn framundan
Undanfarin misseri hefur verið unnið að ítarlegri greiningu á umferðarástandi á svæðinu, veitulögnum sem liggja meðfram brautinni og samspili við aðrar framkvæmdir sem tengjast þessum kafla Kringlumýrarbrautar. Slíkar greiningar eru nauðsynlegar til að tryggja að framkvæmdin sé bæði hagkvæm og aðlögunarhæf til framtíðar.
Næstu skref í verkefninu eru verkhönnun og gerð útboðsgagna. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bjóða út fyrsta hluta framkvæmdanna fyrir vorið og hefja vinnu við forgangsakrein í suðurátt í framhaldinu. Þar verður lögð áhersla á að byggja upp innviði sem gera almenningssamgöngur skilvirkari og áreiðanlegri.
Verkefnið er hluti af stærri áætlun um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lögð er aukin áhersla á vistvænar samgöngur, styttri ferðatíma og aukið öryggi. Með tilkomu forgangsakreinarinnar á Kringlumýrarbraut er stigið mikilvægt skref í átt að því markmiði að gera strætó að raunhæfum og hagkvæmum ferðamáta fyrir fleiri íbúa og draga þar með úr álagi á helstu umferðaræðar borgarinnar.
Kort af svæðinu. Kaflinn sem um ræðir er vestan megin á Kringlumýrarbraut, með akstursstefnu í suður.
Farþegar strætó skipta um vagn í Mjódd. MYND/RÓBERT REYNISSON