Fjölmörg verkefni unnin fyrir viðbótarfé
Vegagerðin fékk 3ja milljarða króna viðbótarfjárveitingu á fjáraukalögum í sumar vegna slæms ástands þjóðvega landsins. Tekið var til óspilltra mála og fénu varið til uppbyggingar vega um allt land. Greinin hér að neðan birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2025.

Vestfjarðavegur (60) um Bröttubrekku var malbikaður í sumar. Mynd: Malbikunarstöðin Höfði
Slæmt ástand vegakerfisins var mikið til umræðu í samfélaginu og í fjölmiðlum í byrjun árs. Miklar vetrarblæðingar, sér í lagi á Vestursvæði, urðu til þess að setja þurfti nokkra vegi á hættustig, lækka hámarkshraða og setja á þungatakmarkanir.
Bikblæðingar eru ekki óþekktar á Íslandi þar sem veðrabrigði eru tíð, og frost og þýða skiptast á. Hins vegar er mun líklegra að þær myndist á vegum með léleg burðarlög. Slíkir vegir eru einnig viðkvæmari fyrir sumarblæðingum þó þær séu af öðrum toga.
Vegagerðin fylgist vel með ástandi vega á landsvísu og flokkar ástand þeirra frá góðu og niður í mjög slæmt ástand. Við ákjósanlegar aðstæður myndi Vegagerðin miða viðhaldsáætlanir sínar við viðhald á vegum í flokknum „sæmilegt ástand“ og forðast þannig frekara niðurbrot þeirra. Veruleikinn er hins vegar sá að 46% vega flokkast í slæmu eða í mjög slæmu ástandi (sjá skífurit).
Viðhald vega hefur verið undirfjármagnað um langa hríð og því hefur myndast vítahringur þar sem einungis er hægt að gera við allra verstu vegina og þeir sem eru í sæmilegu ástandi fá ekki nauðsynlegt viðhald og detta niður í verra ástand. Kostnaður við holuviðgerðir hefur stigmagnast undanfarin ár og mun kostnaðarsamara er að laga illa farinn veg en sæmilegan. Það fer því illa með fé að leyfa viðhaldi að drabbast niður.
Vegagerðin hefur lengi kallað eftir auknum fjárveitingum til viðhalds þjóðvega. Nú kveður við nýjan tón og í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var síðastliðið sumar á Alþingi var gerð grein fyrir áformum um auknar fjárheimildir til viðhalds vega til næstu ára. Þá var í byrjun júlí samþykkt viðbótarfjárveiting á fjáraukalögum upp á þrjá milljarða króna sem nýtt var til góðra verka í sumar.
Þar sem nokkuð var liðið á sumarið var ekki gefið að Vegagerðinni tækist að bjóða út öll verk sem búið var að undirbúa. Svæði Vegagerðarinnar voru í startholunum og hófust strax handa og útboðin gengu framar vonum og góð tilboð bárust í þau flest.
Fyrir viðbótarfjárveitingar tókst að yfirleggja samtals um 38 km með klæðingu til viðbótar því sem áætlað var í upphafi sumars, sem var um 52 km. Alls voru því yfirlagnir á vestursvæði um 90 km á árinu. Alls var hægt að malbika um 7 km á Vestursvæði til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í upphafi sumars, sem var 2,8 km.
Önnur minni fræsingarverkefni og lagfæringar á Vestursvæði: Má þar nefna kafla við Flókalund, Varmalandsveg, Borgarfjarðarbraut gegnum Kleppjárnsreyki og kafla á Patreksfjarðarsvæðinu.

Vestfjarðavegur (60) um Bröttubrekku var malbikaður í sumar. Mynd: Malbikunarstöðin Höfði