4. september 2023
Ekki áður meiri umferð á Hring­vegi í ágúst

Umferðin í ágúst á Hringveginum hefur ekki áður mælst meiri. Hún jókst um rúm átta prósent frá sama mánuði fyrir ári síðan en var eigi að síður heldur minni en umferðin í júlí. Nú má búast við að umferðin í ár aukist um 6-7 prósent á Hringveginum.

Milli mánaða
Nýtt umferðarmet, var sett í nýliðnum ágúst, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, en umferðin jókst um 8,1% miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Alls fóru tæplega 122 þúsund ökutæki á sólarhring, yfir mælisniðin 16 á hverjum einasta dagi í nýliðnum ágúst.  Þetta er þó ekki met, fyrir árið í heild, því umferðin í júlí var rétt tæplega 125 þús. ökutæki á sólarhring.

Mest jókst umferð um Norðurland, eða um 12,6%, en minnst var aukningin um Austurland, eða um 5,3%.

Frá áramótum
Nú hefur umferðin aukist um 8,9%, frá áramótum.  Mest hefur umferðin aukist um Vesturland (9,1%) en minnst um Austurland (3,8%).

Umferð vikudaga
Umferð hefur aukist í öllum vikudögum og þá hlutfallslega mest á mánudögum (11,6%) en minnst á sunnudögum (5,4%). Mest hefur verið ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.

Horfur út árið 2023
Nú stefnir í að umferðin geti aukist um 6 – 7%, miðað við árið 2022.  Gangi sú spá eftir verður slegið nýtt met í umferð um Hringveginn og um 34 milljónir ökutækja muni þá hafa farið yfir mælisniðin 16, í heild, árið 2023.