20. nóvember 2025
Breyt­ingar á leiða­kerfi lands­byggðar­vagna

Breytingar á leiðakerfi landsbyggðarvagna

Breytingar á leiðakerfi landsbyggðarvagna munu taka gildi þann 1. janúar 2026. Verkefnið er hluti af heildrænni endurskoðun á leiðakerfinu, en það hefur verið að mestu óbreytt frá árinu 2012. Á sama tíma taka einnig gildi fjórir nýir útboðssamningar um akstur á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vestur- og Norðurlandi og Norður- og Norðausturlandi.

Markmiðið með endurskoðuninni er að gera landsbyggðarvagna aðlaðandi valkost fyrir núverandi og framtíðarnotendur með því að:

  • samþætta leiðakerfið við önnur innanbæjarkerfi
  • tengjast áætlunarflugvöllum og ferjuhöfnum
  • undirbúa leiðakerfið fyrir orkuskipti
  • einfalda farmiðakaup notenda

Leiðanet landsbyggðavagna spannar alla landshluta og skiptist rekstur kerfisins niður í fimm útboðssvæði: Austurland, Norður- og Norðausturland, Vestur- og Norðurland, Suðurnes og Suðurland. Leiðakerfi landsbyggðarvagna er mjög stórt og umfangsmikið. Í kerfinu eru í dag alls 30 akstursleiðir sem sinnt er af 35 vögnum, en frá og með áramótum mun akstursleiðunum fjölga um tvær og fjöldi vagna fer alls í 38.

Þá er notendahópur landsbyggðarvagna fjölbreyttur en í stuttu máli er hægt að flokka hann í tvennt. Annars vegar aðila sem nota kerfið daglega til að sækja vinnu og skóla og hins vegar þau sem nýta kerfið sjaldnar og þá fyrir langferðir.

Hlekkur – Allar helstu upplýsingar um nýtt leiðarkerfi er að finna á vef Strætó.

Undirbúningur, úrvinnsla og útboð

Frá upphafi verkefnisins var stefnan að endurskoða núverandi kerfi en ekki að hanna nýtt frá grunni þar sem að kerfið frá 2012 er í raun vel hannað. Kerfið hefur aftur á móti ekki verið uppfært reglulega líkt og þörf er á svo almenningssamgöngur séu í takt við síbreytilega ferðahegðun íbúa.

Verkefnið hófst formlega á vordögum 2024 með samráðsfundum sem haldnir voru víða um land með hagaðilum. Á þeim fundum fékkst gríðarlega mikilvæg innsýn í þau samfélög sem landsbyggðarvagnar þjónusta í dag. Úrvinnsla verkefnisins samanstóð af niðurstöðum samráðsfundanna, tölfræði úr gagnasafni Vegagerðarinnar á rekstri landsbyggðarvagna, og sérfræðiþekkingu starfsfólks Vegagerðarinnar. Þá var Verkfræðistofan VSÓ fengin til aðstoðar við uppstillingu tímataflna, akstursleiða og vagnaferla sem byggðist á niðurstöðum gagnaúrvinnslunar. Þegar lokadrög verkefnisins lágu fyrir í janúar 2025 voru haldnir fimm kynningarfundir fyrir samtök sveitarfélaga og  sveitarfélög þar sem niðurstöður hvers útboðshluta voru kynntar. Að lokum voru fjögur af fimm útboðssvæðum landsbyggðarvagna auglýst í mars. Opnun tilboða fóru fram í júní. Lægstbjóðendur voru GTs ehf. á Suðurlandi, Bus4u ehf. á Suðurnesjum, Hópbílar efh. á Vestur- og Norðurland, og Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. á Norður- og Norðausturland.

Kort sem sýnir nýtt leiðakerfi landsbyggðavagna sem tekur gildi um áramótin.

Kort sem sýnir nýtt leiðakerfi landsbyggðavagna sem tekur gildi um áramótin.

Helstu breytingar

Aðgreining akstursleiða

Stærsta breytingin á leiðakerfinu er aðgreining akstursleiða sem sinna annars vegar vinnu- og skólasókn, og hins vegar langferðum. Tímaáætlun akstursleiða sem sinna vinnu- og skólasóknarsvæðum verður áreiðanlegri, en seinkanir sem verða í dag á lengri akstursleiðum vegna færðar eða annara atvika, hafa veruleg áhrif á ferðir þeirra sem nota sömu vagna til að ferðast heim eftir vinnu og skóla.

Þéttari tíðni á álagstímum

  • Tíðni vagna verður þéttari á morgnana og síðdegis, aðallega á leiðum sem aka inn á höfuðborgarsvæðið.
  • Tími milli ferða á álagstímum verður að jafnaði 1 klukkustund í stað 1,5 til 2 klst. eins og það er í dag.

Áreiðanlegri samgöngur

  • Tímasetningar og tíðni akstursleiða sem sinna vinnu- og skólasóknarsvæðum á landsbyggðinni verður betrumbætt. Ferðum milli Þorlákshafnar og Hveragerðis verður fjölgað úr þremur í fimm; og næturferð kl.05:12 verður í boði á leið 89 í takt við morgunvaktir Isavia á Keflavíkurflugvelli.
  • Áætlun akstursleiða verður í takti við vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.
  • Vagnafloti verður staðsettur á atvinnu- og skólasóknarsvæðum á landsbyggðinni til að ferðir falli síður niður vegna ófærðar á heiðum, ofanflóða og vindhraða.
  • Jöfnunarstöðvar verða staðsettar með tilliti til veðurfarslegra- og landfræðilegra aðstæðna. Jöfnunarstöð leiðar 57 í Borgarnesi færist yfir í Staðarskála m.t.t. Holtavörðuheiðar, Vatnsskarðs og Öxnadalsheiðarþ Stopp í Staðarskála styttist verulega.

Betri tímasetning langleiða

  • Áætlun langleiða verður á þann veg að hægt sé að ferðast með vögnunum síðdegis.
    • Nemendur á heimavistum geta tekið vagna eftir að skóla lýkur á föstudögum og til baka síðdegis á sunnudögum.
    • Aðilar sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu lengra að, dvelja ekki lengur en eina nótt áður en hægt er að halda heim með næsta vagni.
  • Akstur í þéttbýliskjörnum verður styttur með fækkun stoppistöðva. Stoppistöðvar í Reykjanesbæ fara úr átta í tvær og á Akranesi úr átta í fjórar.
  • Akstri verður hætt á svæðum sem sinnt er af öðrum landsbyggðarvögnum. Leið 57 hættir að aka inn á Akranes.

Tengingar við önnur leiðanet

Önnur breyting er að samþætta leiðanet landsbyggðarvagna og annarra innanbæjarvagna. Hlutverk landsbyggðarvagna samkvæmt stjórnvöldum er að tengja þéttbýliskjarna og sveitarfélög, og að það er verkefni sveitarfélaga að sinna innbæjarakstri. Með samþættingu leiðaneta verður upplifun notenda jákvæðari, ferðin verður samfelldari og óþarfa biðtími þegar skipt er um vagna lágmarkaður.

Tenging við leiðanet höfuðborgarsvæðisins

  • Landsbyggðarvagnar hafa aðgang að jöfnunarstöðvum (skiptistöðvum) höfuðborgarvagna, bæði í dag og í framtíðinni með tilkomu Borgarlínu.

Tenging við innanbæjarkerfi á landsbyggðinni

  • Landsbyggðarvagnar hafa aðgang að jöfnunarstöðvum í þéttbýliskjörnum sveitarfélaga og þeim sem munu rísa í framtíðinni.
  • Unnið er að samstarfi við sveitarfélög um að aðlaga tímaáætlanir beggja leiðakerfanna svo notendur njóti ávinningsins.

Tenging við áætlunarflugvelli

Tengingar við áætlunarflugvelli stórbætist frá og með áramótum þegar landsbyggðavagnar hefja akstur til og frá Akureyrarflugvelli, en Vegagerðin á í samstarfi við Isavia um uppbyggingu stoppistöðvar á plani við nýju flugvallarbygginguna. Valdar tímasetningar í áætlun akstursleiða verða tímasettar á þann veg að þær passi við flugferðir sem eru stöðugastar í flugáætlun Icelandair. Munu landsbyggðarvagnar bæði nýtast þeim sem búa utan Akureyrar sem og íbúum á Akureyri.

Aðgengi almenningsvagna að Keflavíkurflugvelli er í þróun í samstarfi við Isavia og opinbera aðila á öðrum vettvangi og því ekki hluti af endurskoðuninni nú.

Markmiðið er að landsbyggðarvagnar séu aðlaðandi kostur fyrir núverandi og framtíðarnotendur.

Markmiðið er að landsbyggðarvagnar séu aðlaðandi kostur fyrir núverandi og framtíðarnotendur.

Orkuskipti

Lagður hefur verið grunnur að því að færa landsbyggðarvagna yfir í hreinorku með því að aðskilja þær leiðir sem aka inn á höfuðborgarsvæðið frá langleiðum. Það var gert til að auka þjónustu beggja kerfanna eins og komið var áður inn á, en einnig til að mynda svigrúm í akstursferlum vagna til að hlaða þá á milli ferða. Vegna skorts á hleðsluinnviðum fyrir stærri ökutæki í dag var þó tekin ákvörðun að gera ekki kröfu um heinorkuvagna í þessu útboði, heldur seinka því til næsta útboðs útboð sem tekur gildi eftir 2-4 ár.

GTs ehf. sem var lægstbjóðandi á Suðurlandi, mun engu að síður leggja til rafmagnsvagna á nær öllum akstursleiðum á samningstímabilinu. Vagnar sem aka milli Selfoss og Reykjavíkur, Þorlákshafnar og Hveragerðis, frá Reykjavík austur að Vík og um uppsveitir Suðurlands, verða allir knúnir hreinorku.

  • Þar með verða almenningssamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur alfarið vera með hreinorku: tvinn-ferjunni Herjólfi IV og rafmagnsvögnum á leiðum 51 og 53.

Einföldun farmiðakaupa

Hluti verkefnisins var einnig að endurskoða gjaldsvæði (e. zone) landsbyggðarvagna, að gera farmiðakaup einfaldari, en misræmi er í dag milli landsvæða hve hátt gjald farþegar þurfa að greiða. Innleiðing nýrra gjaldsvæða er ekki hluti þessa verkefnis en verður partur af nýju fargjaldakerfi, en Vegagerðin stefnir á að innleiða miðasölukerfi frá FARA AS, því sama og hannaði Klappið fyrir Strætó bs.

Næstu skref er endurskoðun á þeim leiðum og útboðssvæðum sem eftir standa, innleiðing hreinorku í leiðakerfi landsbyggðarvagna, og uppbygging stoppistöðva og jöfnunarstöðva. Stærsta áskorun næstu ára verður að haga rekstri landsbyggðarvagna á þann hátt að leiðakerfið sé jafnt og þétt uppfært til að það sé ávallt í takt við þjónustuþarfir íbúa landsins.

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Notendahópurinn samanstendur aðallega af farþegum sem sækja vinnu og skóla eða nýta sér vagnana fyrir langferðir.

Notendahópurinn samanstendur aðallega af farþegum sem sækja vinnu og skóla eða nýta sér vagnana fyrir langferðir.