Bráðabirgðabrú hífð á Ölfusá með stærsta krana landsins
Bráðabirgðabrú yfir Ölfusá var hífð á stöpla sína föstudaginn 4. júlí. Brúin tengir varnargarð austan megin árinnar við steyptan sökkul á eyjunni. Hún mun þjóna vinnuumferð út í eyjuna en þar þarf að reisa undirstöður fyrir 60 metra háan turn Ölfusárbrúar.
Bráðabirgðabrúin hífð á stöpla sína.
Dágóður tími fór í undirbúning en sjálf hífingin gekk snuðrulaust og hratt fyrir sig. Byrjað var að hífa um klukkan 17 og var brúin komin á sinn stað um tuttugu mínútum síðar. DS lausnir sáu um að hífa brúna en til þess var notaður 400 tonnmetra krani sem er sá stærsti á landinu.
Brúin er frá fyrirtækinu Acrow á Bretlandi og er sömu gerðar og nýja færanlega göngu- og hjólabrúin yfir Sæbraut. Hún kom ósamsett til landsins og það tók fimm menn tvo daga að setja hana saman sem var tveimur dögum fljótar en framleiðandinn gerði ráð fyrir. Brúin var 44 tonn þegar hún var hífð af krananum en þegar búið verður að leggja brúargólf verður hún 68 tonn.
Næstu daga tekur við frágangur við brúna, steypa þarf bakveggi, festa brúargólf, ganga frá festingum og fylla jarðveg að henni. Áætlað er að það taki um vikutíma en að því loknu verður opnað fyrir vinnuumferð yfir í eyjuna til að koma efni og búnaði út í hana. Í eyjunni verða byggðar undirstöður fyrir 60 metra háan turn Ölfusárbrúarinnar.
Bráðabirgðabrúin hífð á sinn stað.
Framkvæmdir við verkið Hringvegur (1) við Ölfusá ganga annars vel. Samningur við verktakan ÞG Verk var undirritaður í nóvember og við sama tækifæri var tekin fyrsta skóflustungan að framkvæmdunum. Síðan þá hafa verið gerðar jarðvegsrannsóknir ýmsar og unnið við jarðvegsskipti. Í janúar var tækjabúnaður fluttur á pramma yfir í Efri-Laugardælaeyju bæði til að gera fleiri rannsóknir en einnig til að undirbúa gerð steypts brúarstöpuls fyrir bráðabirgðabrúna.
Í maí og júní var unnið að því að koma upp varnargarði og vinnuvegi í Ölfusá, frá eystri bakka árinnar í átt að Efri-Laugardælaeyju. Verktakinn hefur einnig að mestu lokið við að skapa sér vinnuaðstöðu austan við ánna.
Í dag starfa um 25 manns við verkið á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingarmanna. Einnig starfa við framkvæmdina hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn framkvæmdarinnar á vegum Vegagerðarinnar. Unnið er að fullnaðarhönnun vega, vegamannvirkja og brúar. Um sextíu til sjötíu manns koma að hönnuninni og eru þeir frá að minnsta kosti fjórum löndum, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Íslandi.
Unnið er við jarðvegsskipti austan árinnar frá bakka Ölfusár áleiðis að fyrirhuguðum mislægum vegamótum Hringvegar (1) austan Selfoss. Búið er að taka burt allt efni og fylling komin vel af stað. Þá er vinna hafin við undirstöður vegbrúarinnar við mislægu gatnamótin.
Vestan megin við ána er búið að hreinsa laus jarðefni af klöppinni þar sem áætlað er að koma fyrir landstöpli Ölfusárbrúarinnar og er ætlunin að hefja uppsteypu stöpulsins í mánuðinum. Unnið hefur verið að því að sprengja klapparhaft sem var í vegstæðinu skammt vestan við ána og er þeim sprengingum lokið. Enn vestar er unnið við fergingar vegstæðisins yfir Hrísmýri á um 700 metra kafla í átt að Biskupstungnabraut. Nauðsynlegt þykir að fergja svæðið þar sem undirlagið er mjúkt og mikilvægt að efnið fái tíma til að setjast og þéttast.
Myndin sýnir varnargarðinn sem búið er að byggja í átt að Efri-Laugardælaeyju frá austurbakka Ölfusár.
Horft yfir vegstæðið yfir Efri Laugardælaeyju í átt að Hveragerði.