Birkitré á faraldsfæti
Í nýju myndbandi um verkefnið Hringvegur (1) um Ölfusá er fjallað um fyrstu framkvæmdir í Efri-Laugardælaeyju. Þar er verið að undirbúa byggingu 60 metra hás turns sem bera mun uppi nýja 330 metra langa stagbrú sem leysir af hólmi gömlu brúnna yfir Ölfusá við Selfoss.
Stór birkitré voru flutt úr Efri-Laugardælaeyju til framhaldslífs í landi Laugardæla.
Í myndbandinu er rætt við Harald Þórarinsson, ábúanda í Laugardælum, en Efri- og Neðri- Laugardælaeyjur tilheyra honum. Haraldur sagði frá félagi góðborgara á Selfossi sem fyrir mörgum árum stundaði skógrækt í Laugardælaeyjum. Þar er því að finna stór og gróskumikil birkitré sem mörg hver þarf að fjarlægja vegna framkvæmdanna. Synd hefði verið að farga trjánum og því var ákveðið að færa trén yfir á landareign Haraldar þar sem þau munu standa keik næstu áratugi.
Í myndbandinu er einnig rætt við Höskuld Tryggvason verkefnastjóra hjá Vegagerðinni. Hann sagði bara sjálfsagt að verða við beiðni Haraldar um flutning á trjánum enda væri það einnig atriði sem minnkaði kolefnisspor framkvæmdanna.
Haraldur sagði einnig frá því að við upphaf framkvæmdanna hefði komið maður ofan úr sveitum og sagt að draugur byggi í eyjunni. Þegar farið var að kanna málið nánar með aðstoð þar til bærra sérfræðinga var talið að þarna væri enginn draugur en hins vegar væri álfabyggð í eyjunni. Verktakinn ÞG Verk hefði samband við álfasérfræðing sem skoðaði málið og taldi álfana hafa fullan skilning á mikilvægi framkvæmdarinnar. Höskuldur sagði mikilvægt að hafa góða áru yfir framkvæmdunum og því sjálfsagt að taka tillit til allra hluta, enda væri það markmið að vinna verkið í sátt og samlyndi við náttúruna.
Haraldur Þórarinsson ábúandi í Laugardælum ræðir við Höskuld Tryggvason verkefnastjóra hjá Vegagerðinni.
Tré flutt úr Efri-Laugardælaeyju
Tré flutt úr Efri-Laugardælaeyju