Í frumvarpi til fjáraukalaga sem kynnt var í ríkisstjórn í vikunni er gert ráð fyrir þriggja milljarða króna aukafjárveitingu til Vegagerðarinnar.
Vestfjarðarvegur (60) gegnum Dalina. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Ástand vegakerfisins hefur verið talsvert til umfjöllunar í vetur, ekki síst vegna mikillar holumyndunar víða um land, sér í lagi á Suðurlandi og Vesturlandi. Við bættust umfangsmiklar vegblæðingar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Vegagerðin hefur á undanförnum mánuðum vakið athygli á umtalsverðri viðhaldsskuld til samgönguinnviða á landinu en skuldin er varlega áætluð um 180 milljarðar króna. Til að sinna eðlilegu viðhaldi á samgöngukerfinu þarf að lágmarki 20 milljarða á ári til að halda í horfinu, en það dugir þó ekki til að vinna upp þá skuld sem þegar hefur myndast.
Vegagerðin hafði því óskað eftir aukafjárveitingu og unnar voru nokkrar sviðsmyndir miðað við mismunandi upphæðir. Fyrir þrjá milljarða er mikið hægt að gera. Til dæmis væri hægt að byggja upp 50 km af vegum í stað 30 km eins og verið hefur undanfarin ár.
Þessi aukafjárveiting verður fyrst og fremst nýtt í endurbyggingu vega og endurnýjun slitlaga þar sem viðhaldsástand er hvað verst.
Vegagerðin áætlar að láta malbika þekkta blæðingakafla, svo sem hluta af Bröttubrekku fyrir vestan og Bakkaselsbrekku fyrir norðan. Umræddir vegir eru með bundnu slitlagi sem kallast klæðing, sem þolir illa mikla og þunga umferð.
Með auknu fjármagni verður einnig hægt að fara í fjölmörg brýn styrkingarverkefni þar sem sérstök áhersla verður lögð á Vesturland þar sem burður vega er á köflum afar bágborinn.
Þá verður lögð áhersla á endurnýjun bundinna slitlaga, sérstaklega á Suðurlandi. Með auknu fjármagni til viðhalds bundinna slitlaga munu vegfarendur ekki einungis verða varir við greinilegar umbætur á vegakerfinu, heldur stuðla aðgerðirnar einnig að því að hægja á niðurbroti samgöngukerfisins til lengri tíma.
Þau verkefni við styrkingar og endurbyggingu vega sem hér eru nefnd voru tilbúin til útboðs en hefðu ekki verið boðin út á þessu ári nema með tilkomu þessarar aukafjárveitingar.