Fljúghálku spáð á höfuðborgarsvæðinu
Búast má við mjög erfiðum akstursskilyrðum á höfuðborgarsvæðinu á morgun föstudag. Spáð er hlýrra veðurfari á Suðvesturlandi á morgun. Þá má reikna með að glerhálka myndist á þjöppuðum snjónum bæði á vegum og gangstéttum.
Þótt það muni ekki rigna mikið þá dugir 3-4 stiga hiti til að bræða yfirborð samanþjappaðs snjós sem skapar flughálku.
Það verður því varasamt að aka um þær götur á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki hefur náðst að hreinsa snjó og klaka.
Undir miðnætti gæti snjóað lítillega en eftir nóttina mun hlýna og síðan má reikna með einhverri rigningu eftir hádegi
Vegagerðin vinnur að því hörðum höndum og öllum tiltækum ráðum að losa um klaka sem hefur myndast á stofnvegum og verður unnið að því fram á nótt. Allir mokstursbílar verða á ferðinni en það eru sex bílar á svæðinu fyrir utan þá bíla sem sinna Vesturlandsvegi, Reykjanesbraut og Hellisheiði. Auk þess verða tveir vegheflar í því að brjóta upp klakann í alla nótt, en þeir hafa verið að verki síðan síðustu nótt.
Þá verður gerð tilraun með að loka akgrein þar sem mikill klaki er og vinna á honum með gröfu, gangi það verklag vel verður unnið með það í alla nótt.
Stefnt er síðan að því að koma salti á göturnar í nótt og fyrramálið áður en það byrjar að hlána þannig að það dragi sem mest úr hálkunni.