28. nóvember 2025
Aldrei leið­inlegt og enginn dagur eins

Aldrei leiðinlegt og enginn dagur eins

Á vaktstöð Vegagerðarinnar starfar teymi vaktstjóra sem sinnir krefjandi og fjölbreyttum verkefnum. Um þessar mundir er leitað eftir hæfileikaríkum nýjum vaktstjórum á Ísafirði.

Á vaktstöð Vegagerðarinnar starfar teymi vaktstjóra sem sinnir krefjandi og fjölbreyttum verkefnum.

Á vaktstöð Vegagerðarinnar starfar teymi vaktstjóra sem sinnir krefjandi og fjölbreyttum verkefnum.

„Á vaktstöðinni er enginn dagur eins. Okkar stærstu verkefni snúa að samræmingu vetrarþjónustu þar sem við vöktum veðrið, greinum veðurgögn og áhrif veðurs á vegakerfið. Við boðum út verktaka og samræmum aðgerðir og vöktun jarðganga enda skipta snör viðbrögð vegna slysa í göngum höfuðmáli,“ segir Jónas Gunnlaugsson sem hefur starfað á vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði síðastliðin tíu ár en lætur brátt af störfum vegna aldurs. „Ég hef haft mjög gaman af þessu starfi og skora á áhugasama að skoða auglýsinguna mjög vel og sækja um. Ég lofa góðum vinnustað og skemmtilegu samstarfsfólki,“ segir hann brosandi.

Einar Ægir Hlynsson hóf störf á vaktstöðinni á Ísafirði fyrir tveimur árum og líst vel á sig. „Síðan ég byrjaði hérna á vaktstöðinni hef ég fengið að takast á við margar áskoranir og lært að leysa ólík verkefni með hjálp góðra samstarfsmanna. Það er aldrei leiðinlegt að mæta í vinnuna enda er hér fullt af fólki sem er bæði skemmtilegt að vinna með og eyða tíma með utan vinnu.“

Starfsfólk þarf að hafa sterka öryggisvitund, haldgóða þekkingu á landinu, er þjálfað í að greina veður og áhrif þess á vegakerfið. Það vinnur eftir skýru verklagi og viðbragðsáætlunum þegar á reynir og þarf að sýna yfirvegun í ákvarðanatöku. Mikilvægt er að geta unnið skipulega í síbreytilegum aðstæðum og tekist á við ófyrirséðar aðstæður.

Viðfangsefnin eru því fjölbreytt en lykillinn að árangri er góð samvinna við aðrar deildir Vegagerðarinnar, verktaka, veðurfræðinga, viðbragðsaðila, sveitarfélög og hina ýmsu sérfræðinga innan stofnunarinnar.

Vaktastjórar vinna til dæmis afar náið með starfsfólki umferðarþjónustunnar sem meðal annars svarar í upplýsingasímann 1777. Lára Sigrún Steinþórsdóttir hefur starfað þar í fjögur ár og líkar afar vel. „Það er mikill samgangur á milli umferðarþjónustunnar og vaktstöðvarinnar. Á vaktstöðinni er alltaf vel tekið á móti manni og allir til í að hjálpa ef eitthvað er,“ segir Lára sem stundar nám í öryggisfræðum og almannavörnum meðfram vinnu. Hún segir það hafa nýst sér afar vel sínu starfi. „Námið hefur hjálpað mér að sjá vinnuumhverfið frá breiðara sjónarhorni, bæði hvað varðar áhættugreiningu, skipulagningu og samskipti. Það hefur líka aukið skilning minn á mikilvægi öflugra verkferla, skýrra boðleiða og öruggs starfsumhverfis. En þetta eru allt hlutir sem við vinnum að alla daga,“ segir Lára. Henni líkar starfsandinn á Ísafirði afar vel. „Andrúmsloftið er létt, jákvætt og andinn í húsinu góður. Samskiptin eru opin, heiðarleg og hvetjandi og alltaf nóg af lífi. Fólk styður hvert annað, fagnar árangri og yfirleitt stutt í grín. Vinnudagarnir líða yfirleitt hratt og þeir geta verið krefjandi. Það er gaman að geta aðstoðað fólk og komið að liði.“

Upplýsingar um starfsauglýsinguna er að finna hér.

Jónas Gunnlaugsson, Einar Ægir Hlynsson og Lára Sigrún Steinþórsdóttir.

Jónas Gunnlaugsson, Einar Ægir Hlynsson og Lára Sigrún Steinþórsdóttir.