Jarðfræðilegar aðstæður á Íslandi eru að mörgu leyti sérstakar. Setlög hérlendis eru jarðfræðilega ung, að stórum hluta mynduð í hamfaraatburðum og oft lausþjöppuð [1]. Upplýsingar um aflfræðilega eiginleika þeirra verða því ekki eingöngu sóttar í erlendar rannsóknaniðurstöður heldur þarf að afla þeirra með staðbundnum hætti. Yfirborðsbylgjumælingar (surface wave methods) eru skilvirk og hagkvæm leið til þess að ákvarða stífnieiginleika (skúfbylgjuhraða og skúfstuðul) jarðvegs. Framkvæmd
yfirborðsbylgjumælinga raskar ekki jarðveginum sem mældur er (non-invasive testing) og krefst einungis létts mælibúnaðar. Rannsakendur við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ hafa framkvæmt aktífar yfirborðsbylgjumælingar (active-source surface wave analysis) hérlendis frá árinu 1996, fyrst SASW mælingar (Spectral Analysis of Surface Waves) [2‒3] en MASW mælingar (Multichannel Analysis of Surface Waves) frá 2013 [4]. Framkvæmd MASW yfirborðsbylgjumælinga er lýst á mynd 1. Slíkar mælingar fara þannig fram að yfirborðsbylgjur eru framkallaðar með höggi á yfirborð jarðar og útbreiðsla þeirra skráð með röð hraðanema.
MASW mælingar skila að jafnaði upplýsingum um stífnieiginleika jarðvegs niður á 10‒30 m dýpi. Passífar MAM yfirborðsbylgjumælingar (Microtremour Array Measurements) byggja á greiningu umhverfistitrings sem skráður er með tvívíðu neti hraðanema sem komið er fyrir á yfirborði. Árið 2020 var slíkum mælingum beitt í fyrsta sinn hérlendis [5]. Í samanburði við aktífar yfirborðsbylgjumælingar skila passífar mælingar auknu könnunardýpi við mat á skúfbylgjuhraða, þó á kostnað nákvæmni næst yfirborði. Að auki geta passífar mælingar gefið upplýsingar um grunntíðni jarðsniða.
Elín Ásta Ólafsdóttir, Bjarni Bessason, Sigurður Erlingsson
Elín Ásta Ólafsdóttir
Stífni- og sveiflueiginleikar íslensks jarðvegs og jarðsniða 2023-2024