PDF · Útgáfa NR-1800-873 / 2025/025 — maí 2025
Kort­lagn­ing á jarð­fræði og jarð­vá hafs­botns­ins í Patreks­firði og Tálkna­firði

Verkefnið snýr að neðansjávarjarðfræði- og jarðvárkortlagningu í Patreksfirði og Tálknafirði. Firðirnir eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg merki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af. Eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins er að varpa ljósi á stærð og fjölda skriðnanna, ásamt því að kortleggja og bæta þekkingu á botngerð og strandgerð fjarðanna. Meginniðurstaða verkefnisins er falin í útgáfu á þrennskonar kortum af fjörðunum báðum, þ.e. jarðfræði- og jarðvárkorti, botngerðarkorti og strandgerðarkorti ásamt jarðfræðiskýrslu. Vonast er til að þessar grunnathuganir nýtist við almennt mat á jarðvá og umhverfisáhrifum á viðkomandi
stöðum og að litið verði til þeirra varðandi skipulag, staðarval og ýmsar framkvæmdir í eða við sjó. Rannsóknir á neðansjávarskriðum umhverfis Ísland eru á byrjunarstigi og lítil vitneskja hefur verið um tilurð þeirra þangað til LHG hóf kortlagningu á grunnsævi með fjölgeislamæli fyrir um 20 árum. Þótt ekki séu til staðfest tilfelli frá sögulegum tíma um neðansjávarskriður í íslenskum fjörðum sýna þessar rannsóknir að slíkar skriður hafa átt sér stað og því næsta víst að slíkir atburðir verði
einnig í framtíðinni. Hér er því á ferðinni náttúruvá sem þarf að hafa vakandi auga með og hætta fyrir sjófarendur, hafnarmannvirki, fiskeldiskvíar og önnur mannvirki við ströndina, jafnvel íbúðarhverfi og samgöngukerfi. Mörg dæmi eru um náttúruhamfarir af þessum toga víða um heim og nærtæk dæmi eru þekkt, bæði frá Noregi og Grænlandi. Alls voru á þriðja tug neðansjávarskriðna kortlagðar í Patreksfirði og Tálknafirði. Um aldur þeirra er lítið vitað en engar sögulegar heimildir eru til. Langmesta skriðuvirknin er við Sandodda í Patreksfirði og þar eru unglegustu skriðurnar. Skriðurnar í Tálknafirði virðast allar gamlar. Eðlilegt væri að sett yrði upp líkan fyrir hugsanlega flóðbylgju sem stafað gætu frá skriðum við Sandodda. Þar væri hægt að skoða umfang bylgjunnar og ölduhæð við ströndina neðan flugvallarins og við
Parteksfjarðarbæ handan fjarðarins. Höfundar skýrslunnar bera ábyrgð á innihaldi hennar. Niðurstöður hennar ber ekki að túlka sem yfirlýsta stefnu Vegagerðarinnar eða álit þeirra stofnana eða fyrirtækja sem höfundar starfa hjá.

Skjámynd 2025-07-28 133121
Höfundur

Árni Hjartarson, Ögmundur Erlendsson

Ábyrgðarmaður

Sigvaldi Þórðarsson

Verkefnastjóri

Ögmundur Erlendsson

Skrá

nr_1800_873_kortlagning-a-jardfraedi-og-jardva-hafsbotnsins-i-patreksfirdi-og-talkafirdi.pdf

Sækja skrá

Kortlagning á jarðfræði og jarðvá hafsbotnsins í Patreksfirði og Tálknafirði