PDF · Útgáfa NR-1800-957 — febrúar 2025
Fugla­líf á hálendis­vegi

Örar breytingar eru að verða á náttúru Íslands vegna aukinnar landnýtingar og loftslagsbreytinga og nauðsynlegt er að rannsaka hvort þessar breytingar hafi áhrif á náttúrufar á stórum svæðum. Þéttleiki fugla getur endurspeglað stöðu lífríkis á svæðum vel þar sem þeir eru ofarlega í fæðukeðjum, auðtaldir og áberandi (Tómas Grétar Gunnarsson 2010). Regluleg vöktun á þéttleika og fjölda einstaklinga er mikilvæg til að vakta stofna og aðrar náttúruauðlindir og leggja grunn að skilningi og framtíðarrannsóknum. Slíkar mælingar eru grundvöllur margra vistfræðirannsókna og eru stundaðar á plöntu- og dýrastofnum víða um heim. Breytileiki í stofnþéttleika í tíma og rúmi endurspeglar oft ástand stofna og getur hjálpað við að skýra ástæður breytinga og skipuleggja viðbrögð. Langtímarannsóknir og vöktun leggja hlutfallslega meira til vistfræðiþekkingar og stefnumótunar en styttri rannsóknir og eru þannig sérstaklega verðmætar (Hughes o.fl. 2017). Líffræðilegri fjölbreytni hnignar nú um allan heim vegna eyðingar búsvæða og loftslagsbreytinga (Pearce‐Higgins o.fl. 2015, Rosenberg o.fl. 2019). Mikilvægt er að stórauka rannsóknir á náttúrfari til að fylgjast með breytingum og undirbyggja viðbrögð eins og hægt er. Stofnar algengra og útbreiddra fugla henta vel til slíkra mælinga því þeir endurspegla breytingar á stórum svæðum (Tómas Grétar Gunnarsson 2010). Talningar á fuglum meðfram vegum hafa þá kosti að hægt er að fara yfir stór svæði á stuttum tíma (Tómas G. Gunnarsson og Böðvar Þórisson 2019), en slík vöktun hefur t.d. verið við líði í Bandaríkjum frá árinu 1966 (Sauer o.fl. 2013). Styrkur fékkst frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar árið 2023 til að hefja slíka vöktun á hálendinu og var farið yfir Sprengisand, Kjalveg og um afréttarveg á Hrunamannaafrétti sumarið 2023 (Böðvar Þórisson og Tómas G. Gunnarsson 2024). Sumarið 2024 var talið aftur á Kili og á Hrunamannaafrétti en bætt við vegköflum á Kvíslaveituvegi og Lakavegi. Talningar sem þessar leggja mikilvægan grunn að
fuglavöktun á þessum svæðum og gefa auk þess viðmiðun ef umferð eða uppbygging vega breytist. Ráðgert er að leggja bundið slitlag á Kjalveg, milli Kattarhryggjar og
Kerlingarfjallavegar á árunum 2029-2033 (Þingskjal 319 – 315. mál).

Skjámynd 2025-07-28 135111
Höfundur

Böðvar Þórisson, Tómas G. Gunnarsson

Skrá

nr_1800_957_fuglalif-a-halendisvegi.pdf

Sækja skrá

Fuglalíf á hálendisvegi