Hér er skýrt frá niðurstöðum tilrauna er hófust árið 2006 til að kanna árangur af notkun svarðlags til
þess að stuðla að endurheimt náttúrulegt gróðurs við uppgræðslu malarnáma. Niðurstöður eftir
fjögur sumur benda til þess að notkun svarðlags skili meiri grenndargróðri en hefðbundnar
uppgræðsluaðgerðir er byggja á því að blanda saman öllum jarðvegi og jafna honum yfir svæðið að
efnistöku lokinni. Ennfremur benda niðurstöðurnar til þess að grassáningar geti verið til óþurftar
þegar svarðlag er notað við uppgræðsluna og að mögulegt sé að takmarka áburðargjöf við slíka
uppgræðslu. Lyngtegundir virtust viðkvæmar fyrir afnámi og dreifingu svarðlagsins. Lagt er til að
lokaúttekt á tilraununum verði frestað til 2011 eða 2012, til að fá fram áhrif af mismunandi
uppgræðsluaðferðum á gróðurframvindu yfir lengri tíma.
Ása L. Aradóttir
Notkun svarðlags við uppgræðslu námusvæða – Áfangaskýrsla