Á undangengnum árum hafa neikvæð umhverfisáhrif samgangna orðið áberandi í umræðu
um umhverfis- og skipulagsmál hér á landi. Rýni á landþörf samgangna í höfuðborginni hefur
ennfremur vakið athygli. Sem dæmi má nefna umræður um færslu Hringbrautar í Reykjavík,
breikkun Reykjanesbrautar í Garðabæ og legu Sundabrautar í Reykjavík. Þetta endurspeglast
meðal annars í tillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018 þar sem lögð er áhersla á
að auka samvinnu samgöngustofnana og skipulagsyfirvalda til að draga úr landnotkun
samgöngumannvirkja og stytta leiðir við skipulag byggða. Þetta var álitið eitt af mikilvægustu
verkefnum framtíðar árið 2006 en ætla má að mikilvægi þess að nýta vel landgæði og draga
úr notkun innflutts eldsneytis hafi aukist enn frekar á undanförnum misserum.
Samkvæmt erlendum rannsóknum sem hér er vitnað til, hefur vaxandi umferðarrýmd
margvísleg áhrif á borgina í heild, m.a. þéttleika, lýðheilsu og samfélag. Ennfremur hefur
verið sýnt fram á að aukin umferðarrýmd geti valdið aukinni umferð og þannig orðið
árangurslítil hvað varðar aukið aðgengi en jafnframt skaðleg fyrir lífsgæði.
Áætlanir, skipulagsvald og samskipti
Sveitarfélögum ber að vinna aðalskipulagsáætlanir, sem eru öflugt stjórntæki, sé þeim beitt
með markvissum hætti. Með því að fela sveitarfélögum áætlanagerðina má ætla að
almenningur eigi greiðari leið að virkri þátttöku í ákvarðanatöku en ella. Ríkisvaldið hefur þó
einnig aðkomu að aðalskipulagsgerð þar sem skipulag öðlast ekki gildi fyrr en það hefur
hlotið staðfestingu umhverfisráðherra. Honum ber að ganga úr skugga um að áætlunin sé í
samræmi við skipulags- og byggingarlög, sem hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Samgöngur eru hluti af aðalskipulagsáætlunum en samgönguáætlanir eru hinsvegar unnar af
samgöngustofnunum ríkisins og öðlast staðfestingu Alþingis. Þessi skipting valds milli
stjórnsýslustiga kann að skapa togstreitu milli embætta sem kunna að hafa ólíka sýn á
verkefnið. Þetta getur haft áhrif á skilvirkni áætlananna.
Mismunandi sýn, markmiðssetning og leiðir í áætlanagerð geta haft áhrif á niðurstöður
framkvæmda eins og þær birtast neytendum, íbúum landsins.
Markviss áætlanagerð þar sem samgöngur eru samþættar annarri landnotkun á vaxandi fylgi
að fagna í löndum þar sem neikvæð áhrif umferðar hafa sett svip á umhverfi og gæði þess.
Dæmi eru um að slík samþætting hafi borið góðan árangur.
Niðurstöður verkefnisins eru þær að markviss stefnumótun þar sem sýn, stefna og hlutverk
eru skýr, sé forsenda þess að þær auðlindir sem settar eru í áætlanagerð nýtist vel. Settir
eru fram kostir til úrlausnar og valkostur sem gerir ráð fyrir samþættum verkferlum í
áætlanagerð um landnotkun. Valkosturinn krefst sameiginlegrar sýnar á gæði umhverfis og
breytinga á núverandi fyrirkomulagi á samvinnu milli stjórnsýslustiga.
Salvör Jónsdóttir, Árni Geirsson
Skipulagsáætlanir og þjóðvegir