Fyrirhugað er að endurbæta vegslóða og leggja veg upp frá þjóðvegi 1., austan við
Þverárnúp á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslum, áleiðis í Lakagíga og hanna hann sem
svonefndan útivistarveg. Ef af verður mun væntanlegt vegstæði koma til með að
liggja norðvestur um Eldhraun að Miklafelli og þaðan til vesturs að Galta. Þar myndi
hann tengjast núverandi leið í Lakagíga og fyrir vikið opnast hringleið. Kunnugt er að
ferðamenn hafa lengstum fylgt fjallvegi F 206 upp í Lakagíga. Í stuttu máli liggur
vegurinn norður frá bænum Hunkubökkum og yfir heiðarlönd á Galta (621 m). Áður
en hæst á fellið kemur verða vegmót þar sem vegurinn kvíslast suðvestur í Blágil og
til norðaustur áleiðis að fjallinu Laka og Lakagígum. F 206 er um 40 km langur og
liggur umhverfis vesturhluta Lakagíga. Lakagígar eru meðal merkustu jarðminja á Íslandi. Gígaröðin myndaðist í
Skaftáreldum 1783-1784 og raðast 140 gígar og eldvörp á samtals um 27 km langa
sprungu (Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Þorvaldur Þórðarson,
2008). Vegna sérstöðu voru Lakagígar friðlýstir árið 1971 sem náttúrvættti og urðu
hluti af Skaftafellsþjóðgarði árið 2004. Sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði má reikna
með því að umferð um gígana eigi enn eftir að aukast. Því fylgir visst áhyggjuefni
sem lýtur að lágum þolmörkum Lakagíga (Anna Dóra Sæþórsdóttir, 2007). Til þess
að sporna við hættu af skemmdum er ráðgert að setja upp upplýsingamiðstöð á Galta
þaðan sem bílaumferð að gígunum yrði takmörkuð. Þaðan yrði farið með rútu eða
gangandi að gígunum. Með þessari aðgerð má líklega minnka álag á viðkvæmum
náttúruminjum (Ragnar Frank Kristjánsson, fyrrum þjóðgarðsvörður í Skaftafelli,
munnleg heimild, 10. apríl 2008).
Ragnar Frank Kristjánsson, Snævarr Guðmundsson
Sjónræn áhrif og upplifun á útivistarvegi í Eldhrauni og Laka