PDF · Útgáfa VMST/08006 — febrúar 2008
Endur­heimt Kolviðar­nesvatns syðra, könn­un á svifi 2003 – Áfanga­skýrsla fyrir verk­efnið „Endur­heimt votlend­is“

Gerð er grein fyrir niðurstöðum könnunar á lífríki Kolviðarnesvatns syðra í Eyja– og
Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, sem gerð var árið 2003. Ráðist var í endurheimt
vatnsins árið 2001 en 1963 hafði það verið ræst fram í þeim tilgangi að nýta landið til
beitar fyrir búfénað. Markmið þessarar könnunar var að skoða ástand vatnsins fljótlega
eftir endurheimt og afla þannig grunnupplýsinga sem síðar mætti nota til að meta
framvindu lífríkis í vatninu. Sýnum var safnað sumarið 2003 og var aðaláhersla lögð á að kanna
krabbadýrafánu vatnsins. Alls fundust 12 tegundir eða hópar krabbadýra. Vatnaflær
(Cladocera) voru algengastar en alls fundust sex ættkvíslir þeirra. Þrjár algengustu
tegundir vatnaflóa voru mánafló (Alona guttata), hjálmfló (Acroperus harpae) og kúlufló
(Chydorus sp.). Þegar leið á sumarið varð mánafló (A. guttata) ríkjandi og fór hlutdeild
hennar (%) af fjölda vatnaflóa úr því að vera 12,5% (12. júní) í 89,7% – 98% (15. júlí).
Hlutdeild tegundarinnar var örlítið minni í síðustu sýnatökunni (8. ágúst), en þá var hún
61,4% - 82,7% af heildarfjölda vatnaflóa. Eingöngu fundust botnlægar tegundir vatnaflóa
í svifvist vatnsins. Áhrif endurheimtar vatna á næringarefnabúskap, samfélög svifþörunga, svifdýra
og botndýra við íslenskar aðstæður er lítt þekkt en með áframhaldandi rannsóknum í
Kolviðarnesvatni syðra er hægt að byggja upp þekkingu á landnámi og framvindu
vatnalífs í grunnum stöðuvötnum samfara endurheimt þeirra. Til að skilja eðli og meta
árangur endurheimtarinnar er mikilvægt að halda úti vöktun. Auk þess væri mikill akkur í
að vatn af svipaðri gerð (lögun, stærð og dýpi) í nágrenninu væri vaktað og notað til
viðmiðunar. Þannig skapast forsendur til að fylgjast með framvindu lífríkis í
Kolviðarnesvatni syðra í kjölfar endurheimtarinnar óháð árstíðabundnum ferlum sem að
öllu jöfnu koma fram í vistkerfum sem þessu. Lagt er til að endurtekin verði hliðstæð
könnun og gerð var í Kolviðarnesvatni syðra 2003 í náinni framtíð til að meta árangur
endurheimtarinnar.

Skjámynd 2025-07-09 134449
Höfundur

Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, Erla Björk Örnólfsdóttir, Jón S. Ólafsson, Sigurður Már Einarsson

Skrá

endurheimt-votlendis-afangaskyrsla-konnun-a-svifi-2003.pdf

Sækja skrá

Endurheimt Kolviðarnesvatns syðra, könnun á svifi 2003 – Áfangaskýrsla fyrir verkefnið „Endurheimt votlendis“