Vegagerðin hefur í umhverfisstefnu sinni lagt áherslu á, að vegir verði
eðlilegur hluti af umhverfinu og að við gerð þeirra verði áhrif á umhverfið sem
minnst.
Liður í því er að skilgreina þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismála í
útboðsgögnum fyrir vega- og brúargerð. Í dag er við slíkar framkvæmdir stuðst
við ritin ”Alverk ´95” og ”Drög að leiðbeiningum og gátlistum um hönnun vega
og brúa”. Í þessum ritum er ekki fjallað um kröfur varðandi umhverfismál við
vegarlagningu. Vísað er almennt til þess að verktakar uppfylli gildandi lög og
reglugerðir. Hvergi er til samantekt yfir kröfur í viðkomandi reglugerðum og er
það vissulega á ábyrgð verktaka að þekkja slíkar kröfur. Einnig er mikilvægt
fyrir verkkaupa að þekkja kröfurnar og geta þannig haft eftirlit með verkinu.
Eftirlitsaðilar hafa í fæstum tilfellum yfirsýn yfir kröfur sem opinberlega gilda á
sviði umhverfismála.
Markmið þessa verkefnis var því að taka saman upplýsingar um lagalegar
kröfur varðandi umhverfismál við vega- og brúargerð á Íslandi. Sömuleiðis að
kanna hvernig staðið er að kröfugerð varðandi umhverfismál við vegarlagningu í nokkrum nágrannalöndum okkar og kynna vinnuferli við mat á
birgjum og verktökum út frá frammistöðu þeirra í umhverfismálum.
Verkefnið var styrkt af Rannsóknarráði Vegagerðarinnar árið 2003 og var
unnið af starfsmönnum Línuhönnunar verkfræðistofu; Ingibjörgu E.
Björnsdóttur, umhverfis- og jarðfræðingi og Helgu J. Bjarnadóttur efna- og
umhverfisverkfræðingi.
Upplýsingarnar sem fram koma í skýrslunni munu nýtast Vegagerðinni sem
grunnur að kröfum eða leiðbeiningum fyrir einstaka verkefni eða almennt.
Upplýsingarnar geta einnig nýst sem grunnur að gátlista við eftirlit með
vegaframkvæmdum. Að auki nýtist yfirlitið yfir lög og reglugerðir beint inn í
umhverfisstjórnunarkerfi Vegagerðarinnar.
Ingibjörg E. Björnsdóttir, Helga J. Bjarnadóttir
Umhverfiskröfur í útboðsgögnum