Í samanburði við norðlæg héruð í nágrannalöndum sem glíma við skafrenning á
vegum er Ísland sérstakt að því leyti að skortur á skóglendi veldur því að nánast allir
vegir á landinu geta orðið fyrir skafrenningsáraun við ákveðin skilyrði. Fyrir vikið er
mikill fjöldi staða á landinu þar sem samspil landslags og veghönnunar veldur því að
skaflar safnast staðbundið á veginn, jafnvel í fyrstu úrkomuveðrum þegar lítill snjór
er annars í umhverfinu. Einkennandi fyrir þessa staði er að aðliggjandi vegarkaflar
geta sloppið við skaflamyndun þó skafrenningur sé, en það eitt og sér hefur í för með
sér slysahættu. Oft á tíðum hægt að draga úr eða komast hjá þessari staðbundnu skaflamyndun með
því að hanna veginn með tilliti til þessa eða breyta nánasta umhverfi hans þannig að
snjóaaðstæður á þessum tiltekna stað verði ekki verri en á aðlægum vegarköflum.
Einnig hafa snjógirðingar oft gefið góða raun á slíkum stöðum. Bestum árangri er
hægt að ná ef tekið er tillit til skafrennings þegar á hönnunarstigi, en erfitt og dýrt
getur reynst að gera úrbætur eftir á.
Í þessu verkefni er sjónum beint að skafrenningsvandamálum þar sem vegur liggur í
skeringum, eða þar sem hóll eða brekka liggur þétt við veginn. Rannsóknir og
reynslugögn hafa sýnt að oft er hægt að fyrirbyggja eða seinka því að skaflar vaxi inn
á vegi á slíkum stöðum með því að huga að lögun skeringar eða gera lítilsháttar
breytingu á umhverfi vegarins, en einnig getur verið nauðsynlegt að hækka veginn
samhliða breytingum á umhverfi.
Skúli Þórðarson. Dr.ing.
Skafrenningur og staðbundin skaflamyndun