PDF · Útgáfa RH-02-2004 — febrúar 2004
Rann­sókn­ir á jarð­hita í Grím­svötn­um árið 2003

Í skýrslunni er fjallað um athuganir og mælingar í Grímsvötnum sumarið 2003. Mælingarnar
eru framhald vinnu síðustu ára en tilgangur þeirra er að varpa ljósi á samspil jarðhita og
vatnssöfnunar og meta getu vatnanna til að valda hlaupum. Yfirborð Grímsvatna og næsta
nágrennis var kortlagt með DGPS. Kortið var borið saman við samskonar kort frá árinu 2002
og breytingar reiknaðar. Í ljós kom að jarðhiti hefur aukist á tveimur svæðum. Annarsvegar
á gosstöðvunum frá 1998, hinsvegar í sigkötlum þeim sem á síðustu árum hafa myndað rennu
gegnum Grímsvatnaskarð norðaustan Grímsfjalls. Ísinn í skarðinu stíflar Grímsvötn en
jarðhitinn veldur því að vatn lekur niður til Skeiðarár þ.a. ekki hafa orðið teljandi hlaup
síðustu árin. Líkur á vatnssöfnun vegna jarðhita í Grímsvötnum eru því litlar í næstu framtíð.
Jarðhitaafl óx nokkuð milli 2002 og 2003, eða úr 1400 MW í 2300 MW. Aukningin helst í
hendur við stöðuga kvikusöfnun undir Grímsvötnum. Þessi þróun sýnir að líkur á eldgosi í
Grímsvötnum á næstu misserum fer vaxandi. Vatnsmagn í Grímsvötnum er nú miklu minna
en algengast var fyrir umbrotin 1996. Þekktir gosstaðir innan Grímsvatna eru nærri
öskjujaðrinum. Við þá lágu vatnsstöðu sem nú ríkir liggur ísinn á botni á flestum þessara
staða. Því gæti gos nú valdið skyndilegri hækkun vatnsborðs. Í ljósi þess að ísstíflan heldur
litlu gæti eldgos við núverandi aðstæður því valdið snöggu Skeiðarárhlaupi. Stærð slíks
hlaups færi eftir gosstað og afli goss. Ef aftur gýs á sama stað og 1998 yrði bráðnun lítil. Ef
hinsvegar gýs undir norðaustanverðu Grímsfjalli, þar sem jarðhiti hefur vaxið mest á síðustu
árum, gæti það valdið töluverðri ísbráðnun og hlaupi.

Skjámynd 2025-07-09 100010
Höfundur

Magnús Tumi Guðmundsson, Þórdís Högnadóttir

Skrá

rannsoknir-a-jardhita-i-grimsvotnum-arid-2003.pdf

Sækja skrá

Rannsóknir á jarðhita í Grímsvötnum árið 2003