Markmið þessa verkefnis er að kanna og kortleggja sigsvæði á Siglufjarðarvegi um
Almenninga og leitast við að finna orsakir þess sigs sem hefur verið á veginum á um
5-6 km löngum kafla frá Fljótum norður að Kóngsnefi. Vegurinn um Almenninga er
eini heilsársvegurinn til Siglufjarðar, en allt frá því að vegurinn var lagður þar árið
1968 hafa skapast töluverð vandræði vegna sigs á honum. Það er talið mikilvægt að
gera sér grein fyrir orsökum sigsins, hvað hefur gerst á þessu svæði og hvaða jarðfræðilegu ferli eru hér virk og hvað getur gerst þarna í náinni framtíð.
Þessi skýrsla er áfangaskýrsla en er gert ráð fyrir að ljúka rannsóknum á
svæðinu næsta sumar. Þá er ætlunin að tengja saman þá yfirborðskönnun sem þegar
hefur farið fram (2003) og athuganir á lausu jarðlögum á svæðinu (2004).
Það svæði sem nefnt er Almenningar liggur frá Hraunum í Fljótum og um 5-6
km til norðurs, að Skriðnavík við Almenningsnöf, yst við Skagafjörð austanverðan.
Standlengjan á svæðinu liggur í norður-suður stefnu en upp af henni af henni ganga
tveir jökulsorfnir dalir, Hraunadalur í suðri og Hrólfsvalladal í norðri sem eru
aðskildir af Breiðafjalli syðst, Torfnafjalli, Kvígildi og Mánárfjalli nyrst (mynd 1).
Strandlengjan, frá Hraunárkróki norður að Almenningsnöf, er tiltörulega bein með
litlum víkum Höðnuvík syðst, Torfnavík, Selvík og Skriðnavík nyrst og litlum nöfum
eða töngum s.s Olnbogi syðst og Ódrykkjutjarnarnef norðar. Strandlengjan einkennist
af allt af 80 m háum bökkum sem sumir hverjir eru gerðir neðst úr bergi með þykkum
lausum jarðlögum ofaná, en annars staðar eingöngu úr lausum jarðlögum. Mikið
sjávarrof er til staðar enda liggur standlengjan fyrir opnu hafi. Allt svæðið einkennist
af miklum efnismössum sem skriðið hafa úr fjöllum og niður dalina, svokölluðum
berghlaupum en nánar verður fjallað um þá hér á eftir.
Athugunarsvæðinu hefur verið skipt niður í 6 svæði á grundvelli þeirra landforma sem sjást á yfirborði. Svæði 1 liggur nyrst. Það er nefnt Arnbjargarháls – Kvígildi og nær frá Kvígildi í suðri og norður fyrir Almenningsnöf að Skriðnavík. Svæði 2
er nefnt Kvígildi og liggur beint niður af samnefndu felli. Svæði 3 er nefnt Hrólfsvalladalur og liggur beint niður undan samnefndum dal og nær frá Torfnafjalli í suðri
og norður að Kvígildi. Svæði 4 nefnist Torfnafjall og liggur beint niður undir samnefndu fjalli. Svæði 5 nefnist Hraunadalur og liggur beint niður af samnefndum dal og
syðsta svæðið, svæði 6, nefnist Breiðafjall og liggur beint niður undir samnefndu
fjalli. Mörk svæðanna eru sýnd á mynd 2.
Þorsteinn Sæmundsson, Halldór G. Pétursson, Höskuldur Búi Jónsson, Helgi Páll Jónsson
Kortlagning á sigi á Siglufjarðavegi um Almenninga – áfangaskýrsla