Skýrsla þessi fjallar um rannsókn sem Auður Magnúsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf vann fyrir
Vegagerðina sumarið 2002. Rannsóknin sneri að mótvægisaðgerðum tengdum
framkvæmdum Vegagerðarinnar og tók hún til tímabilsins 1994-2002. Úttekt var gerð á
útgefnum matsskýrslum Vegagerðarinnar frá árinu 1994 til 2002, eða frá því að lög um
mat á umhverfisáhrifum framkvæmda tóku gildi árið 1994. Farið var yfir þær
mótvægisaðgerðir sem settar voru fram í matsskýrslum, úrskurðum Skipulagstofnunar
og þegar við átti, úrskurði umhverfisráðherra. Einnig var farið yfir þær
mótvægisaðgerðir sem settar voru fram í umsögnum og athugasemdum við
matsskýrslurnar.
Tilgangurinn með rannsókninni var að gefa yfirlit yfir framsetningu og skilvirkni
mótvægisaðgerða í vegagerð þannig að hægt sé að draga lærdóm af því sem vel hefur
verið gert og því sem miður hefur farið.
Allar mótvægisaðgerðir sem lagðar voru til í skýrslum, umsögnum, athugasemdum og
úrskurðum voru skráðar og flokkaðar, annars vegar eftir umhverfisþáttum og hins vegar
eftir eðli aðgerðanna. Út frá þessum flokkunum fengust þær niðurstöður að flestar
mótvægisaðgerðir eru settar fram vegna röskunar gróðurs, sjónrænna áhrifa, efnistöku
og áhrifa á fiska, landnotkun og fornleifar. Meira en helmingur aðgerðanna er þess
eðlis að þær eiga að koma í veg fyrir umhverfisáhrif, draga úr eða lágmarka þau. Hins
vegar eru aðgerðir sem eru í formi bóta í minnihluta.
Flestar mótvægisaðgerðir eru lagðar fram í matsskýrslum Vegagerðarinnar, eða 62%
allra skráðra aðgerða en næstflestar eru lagðar fram í umsögnum eða 23%.
Náttúruvernd ríkisins er sá aðili sem leggur flestar mótvægisaðgerðir til utan
Vegagerðarinnar.
Rannsóknin leiddi í ljós að gæði matsskýrslanna hafa farið batnandi undanfarin ár en
framsetningu mótvægisaðgerða er á stundum ábótavant og eru lagðar til úrbætur í
þeim efnum. Bætt framsetning getur hjálpað til við eftirfylgni sem virðist ekki vera í
nógu föstum skorðum. Í skýrslunni er lagður til ferill þar sem mótvægisaðgerðir skila
sér úr skýrslu og/eða úrskurði Skipulagsstofnunar og yfir í framkvæmdina sjálfa.
Eftirfylgni mótvægisaðgerða er nokkuð ábótavant og má segja að þar sé um að kenna
ákveðnu tómi sem tekur við eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar hefur verið kveðinn
upp.
Hugmyndafræðin á bakvið mótvægisaðgerðir virðist ekki öllum ljós og eru
mótvægisaðgerðir stundum settar fram meira í formi almennrar varkárni frekar en
markvissra mótvægisaðgerða við ákveðnum áhrifum. Í skýrslunni er lögð áhersla á að
við ákvörðun mótvægisaðgerða sé fjallað um aðgerðirnar samhliða neikvæðum
áhrifum, að skýrt sé tekið fram hvað mótvægisaðgerðunum sé ætlað að gera og
hvenær og hvernig þær verði framkvæmdar.
Á heildina litið er niðurstaðan sú að Vegagerðin er á réttri leið varðandi
mótvægisaðgerðir þó svo að bæta mætti framsetningu og ígrunda tillögur að
mótvægisaðgerðum betur. Með niðurstöðum úr þessari rannsókn ætti Vegagerðin að
hafa góða yfirsýn yfir stöðu mótvægisaðgerða í matsskýrslum sínum og þannig geta
tekið ákvarðanir um hvar bera skuli niður til að lagfæra það sem lagfæra þarf.
Markvissari mótvægisaðgerðir munu tvímælalaust skila sér í minni umhverfisáhrifum en
ljóst er að rannsaka þarf frekar virkni aðgerðanna. Vel mætti sjá það fyrir sér sem
samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og annarra viðeigandi stofnana eða fyrirtækja.
Auður Magnúsdóttir
Vegagerð og mótvægisaðgerðir