Í þessari samantekt verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem beinir sjónum að aðkomu og stuðningi heimafólks við þróun og framsetningu nýrra ferðamannaleiða um jaðarsvæði íslenskrar ferðaþjónustu. Tilgangur rannsóknar er tvíþættur. Annars vegar sá að auka skilning á samfélagslegum áhrifum ferðamannaleiða í dreifbýli með því að skoða þátt heimafólks í undirbúningi, aðdraganda og útfærslu ferðamannaleiða. Hins vegar að kanna hvort heimafólk sjái tækifæri í að nýta leiðina til
uppbyggingar ferðaþjónustu á heimasvæðum.
Ferðaþjónusta er gjarnan nefnd sem leið til að skapa ný atvinnutækifæri og efla hagsamfélagslegar aðstæður byggða (Rosalina et al., 2021). Hvernig til tekst er þó háð ýmsum innri og ytri þáttum. Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur heimamanna er einn mikilvægasti innri þáttur farsællar uppbyggingar ferðaþjónustu(Eslami et al., 2019), enda heimafólk einn mikilvægasti hlekkur ferðaþjónustu í héraði (Hateftabar & Chapuis, 2020). Þegar kemur að uppbyggingu ferðamannaleiða hafa rannsóknir jafnframt sýnt fram á mikilvægi samtakamáttar íbúa og skipuleggjenda leiðanna (Dunne et al., 2021; Hanrahan et al., 2017), þar með talið þegar kemur að því að hampa því sem hampa skal og forðast að upp komi þrætuefni tengd leiðunum. Aðkoma og stuðningur heimafólks í uppbyggingu ferðaþjónustu hefur hins vegar ekki hlotið mikla athygli rannsakenda, þá sérstaklega ekki í samhengi ferðaþjónustu í dreifbýli (Yanan et al., 2024) en það er einmitt eitt meginviðfangsefna þessarar rannsóknar. Rannsókninni er beint að viðhorfi heimafólks til ferðaþjónustu og ferðamannaleiða á tveimur dreifbýlum svæðum, Melrakkasléttu og Vatnsnesi sem bæði eru á nýrri
ferðamannaleið, Norðurstrandarleið – the Arctic Coast Way.
Þórný Barðadóttir
nr_1800_1004_adkoma-og-syn-heimafolks-a-uppbyggingu-ferdathjonustu-og-nyrra-ferdamannaleida-um-famenn-svaedi.pdf
Sækja skrá„Bara, gangi öllum vel“ Aðkoma og sýn heimafólks á uppbyggingu ferðaþjónustu og nýrra ferðamannaleiða um fámenn svæði