Vegagerðin kynnir hér fyrirhugaðar framkvæmdir á um 7,5 km löngum kafla á Einholtsvegi (358-02), milli Drumboddsstaðavegar (3683-01.) og Hrunamannavegar (30-08) f Bláskógabyggð. Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar. Engin breyting verður á legu hans.
Endurbygging Einholtsvegar 358 í Bláskógabyggð
Stefnt er á að bjóða verkið út haustið 2025 og áætlað að framkvæmdum verði lokið haustið 2027. Framkvæmdin er fjármögnuð með fjárveitingu á Tengivegaáætlun 2025-2029 þar sem markmiðið er að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi.
Vegagerðin áætlar að vegurinn verði endurbyggður á árunum 2026-2027. Áætluð efnisþörf endurbyggðs vegar er um 78 þús. m³ og reiknað er með að megnið af efninu verði tekið úr skeringum en annað efni tekið úr námum í nágrenni framkvæmdasvæðisins.
Kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 því endurbygging vegarins nær til meira en 5 km kafla, auk þess sem meta þarf áhrif á verndarsvæði.
Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi fremur lítil umhverfisáhrif nema hvað varðar betri samgöngur og bætt umferðaröryggi vegfarenda.
Markmið framkvæmdarinnar er að bæta vegsamgöngur á svæðinu, auka umferðaröryggi íbúa og annarra vegfarenda á Einholtsvegi (358-02) og stuðla að greiðari samgöngum í Bláskógabyggð. Vegurinn verður hærri og aðeins breiðari en núverandi vegur, með bundnu slitlagi, bættum sjónlengdum og öruggum hliðarsvæðum. Hönnun vegarins miðari við 70 km/klst hámarkshraða.
Ekki er um styttingu að ræða heldur fyrst og fremst vegabætur til að auka umferðaröryggi og þægindi vegfarenda á svæðinu með því að setja á hann bundið slitlag.