11. desember 2024
Vatn flæddi yfir Hring­veg undir Eyja­fjöll­um

Vatn flæddi yfir Hringveg undir Eyjafjöllum

Það gerði slíka úrhellisrigningu undir Eyjafjöllum á mánudag að heimafólk man vart eftir öðru eins. Rigningunni rigndi niður í stöðugum gusum, vatnsflaumarnir runnu niður úr fjallshlíðum og á skömmum tíma tók að flæða yfir tún, læki og ár bólgnuðu upp og gríðarlegt vatn barst yfir vegi og láglendi. Að sögn heimamanna má líkja rigningunni við það sem gerist í miklum sumar­skýjum í útlöndum, nema hvað að hér stóð hún óslitið klukkustundum saman.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Vík, segir að vatn hafi flætt yfir Hringveginn á nokkrum stöðum í kjölfar mikilla vatnavaxta og úrkomu. Að hans sögn þurfti strax að grípa til þess ráðs að stýra umferðinni svo vegfarendur gætu haldið áfram för sinni þrátt fyrir erfiðar aðstæður og að tryggt yrði sem best öryggi þeirra sem á ferð voru.

„Við hjá Vegagerðinni fengum fyrst fréttir af því aðfaranótt mánudagsins að flætt hefði yfir veginn við Bakkakotsá, með þeim afleiðingum að lögreglubíll flaut upp og endaði utan vegar. Kallaður var út mannskapur umsvifalaust og við fórum á vettvang til að meta ástandið. Um leið var ástandið við Kaldaklifsá skoðað, en þar flæddi vatn yfir varnargarða og straumurinn braut sér leið yfir Hringveginn. Vestar, við Holtsá, rofnaði varnargarðurinn svo vatn flæddi yfir veginn með þeim afleiðingum að afleggjarinn heim að Ásólfsskála lokaðist. Við höfðum þá strax samband við verktaka sem brást við um nóttina og hóf viðgerðir á varnargarðinum,“ segir Ágúst.

Lögreglan var á vettvangi og aðstoðaði við að tryggja öryggi vegfarenda, meðal annars við Skógafoss þar sem aðstæður voru afar slæmar vegna vatnavaxta og allt var umflotið.

„Björgunarsveitir voru líka kallaðar út og veittu okkur góða aðstoð. Við hjá Vegagerðinni fengum mannskap til að hjálpa okkur við að stýra umferð yfir kaflana þar sem vatn flæddi yfir veginn. Þannig tókst að halda umferð gangandi að mestu leyti og koma í veg fyrir frekari slys eða óhöpp,“ segir Ágúst.

Þrátt fyrir aðstæður sem má lýsa sem mjög krefjandi urðu litlar varanlegar skemmdir á Hringveginum sjálfum. „Það er þó eitthvað um kantskemmdir sem við erum þegar farin að vinna í að laga. Að auki urðu einhverjar skemmdir á tengivegum í nágrenninu og eru viðgerðir þegar hafnar á þeim stöðum. Við stefnum að því að koma öllum vegum í fullan lagnað sem allra fyrst,“ bætir Ágúst við.

Við Skógafoss var allt umflotið vegna vatnavaxta.

Við Skógafoss var allt umflotið vegna vatnavaxta.

Heimafólk man vart eftir öðru eins rigningarveðri.

Heimafólk man vart eftir öðru eins rigningarveðri.

Eitthvað er um kantskemmdir en unnið er að viðgerðum.

Eitthvað er um kantskemmdir en unnið er að viðgerðum.

Umferð var stýrt um veginn.

Umferð var stýrt um veginn.