Snjóflóðavarnir voru ræddar á alþjóðlegri ráðstefnu á Ísafirði
Í ár eru þrjátíu ár liðin frá snjóflóðunum mannskæðu í Súðavík og á Flateyri. Af því tilefni var haldin alþjóðleg ráðstefna, SNOW 2025, á Ísafirði dagana 30. september til 3. október 2025. Fjallað var um málið í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.

Hópurinn fyrir framan varnargarðana á Flateyri.
Á ráðstefnunni komu saman sérfræðingar frá fjölmörgum löndum til að ræða ofanflóðavarnir og náttúruvár. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 120 og þar af yfir 40 erlendir sérfræðingar sem komu til dæmis frá Sviss, Noregi, Kanada og Japan. Þá kynntu fjölmörg fyrirtæki búnað til snjóflóðavarna á ráðstefnunni.
Vegagerðin kom að skipulagningu ráðstefnunnar ásamt öðrum á borð við Verkfræðingafélag Íslands, Skipulagsstofnun, Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir, Háskóla Íslands, NTNU í Þrándheimi, Norges Geotekniske Institutt (NGI), SLF Davos í Sviss og ORION Consulting slf.
Helstu viðfangsefnin sem rædd voru á ráðstefnunni voru:
Valgeir Ægir Ingólfsson, sérfræðingur á Austursvæði Vegagerðarinnar, var einn af fulltrúum Vegagerðarinnar á SNOW 2025. Hann segir ráðstefnuna hafa verið mjög mikilvægan vettvang fyrir faglegt samtal um ofanflóðavarnir og samfélagslega aðlögun.
„Helstu markmiðin með ráðstefnunni voru að miðla nýjustu rannsóknum og reynslu, efla samstarf milli innlendra og erlendra aðila, styrkja vitund og viðbúnað sveitarfélaga og stofnana gagnvart náttúruvá og að auka aðlögun samfélagsins og samspil mannvirkja við náttúruna,“ lýsir Valgeir.
„Þarna var sýnt fram á að tækninýjungar, alþjóðlegt samstarf og samþætting við skipulag eru lykilatriði í framtíðarsýn um öruggari byggðir,“ segir Valgeir, og bendir á að mikil áhersla hafi verið lögð á að styrkja traust íbúa, nýta nýjustu tækni og tryggja að samfélagsleg sjónarmið séu hluti af allri áhættustýringu.
En hverjar voru helstu niðurstöður ráðstefnunnar að hans mati?
„Þær voru allmargar. Til dæmis að traust íbúa á varnaraðgerðum sé algert lykilatriði. Að ekki megi bara einblína á tæknilega virkni heldur þurfi einnig að fá félagslegt samþykki,“ segir Valgeir og nefnir einnig að samþætt áhættumat og skipulag byggðar sé mikilvægt til að tryggja öryggi og sjálfbærni.
Töluvert var rætt um tækninýjungar á ráðstefnunni. „Þarna voru kynntar nýjar aðferðir í þrívíddarlíkönum og hermun sjóflóða. Líka notkun á gervigreind og radarvöktun sem er að ryðja sér til rúms í vöktun og forvörnum,“ segir Valgeir og bendir á verkefni á Flateyri og Patreksfirði þar sem ný tækni er notuð í íslenskum aðstæðum. „Einnig var fjallað um nýjungina HELIOPLANT sem snýst um samspil sólarorku og snjóflóðavarna.“
Varnarmannvirki og hönnun voru talsvert til umræðu. „Í erindunum var til dæmis fjallað um nýjungar í hönnun og viðhaldi varnargarða, meðal annars með tilliti til loftslagsbreytinga. Þá var rætt hvort skoða þyrfti hvort eldri kröfur í hönnun ættu enn við í dag.“
Mikil áhersla var lögð á alþjóðlegan samanburð en sérfræðingar frá fjölmörgum löndum deildu reynslu sinni af áhættustýringu, varnaraðgerðum og samfélagslegum áskorunum.

Valgeir er hér lengst til hægri, Geir Sigurðsson, verkefnastjóri vetrarþjónustu, fyrir miðju og Guðmundur R. Björgvinsson eftirlitsmaður til vinstri.

Yfirstandandi framkvæmdir við endurbætur á snjóflóðavörnum við Flateyri.

Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 120, þar af um 40 erlendir sérfræðingar.