10. maí 2022
Skrif­að undir verk­samn­ing vegna vega­gerðar um Teigs­skóg

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Óskar Sigvaldason framkvæmdastjóri Borgarverks skrifuðu undir verksamning í húsakynnum Vegagerðarinnar 10. maí. Verkið snýst um vegalagningu frá þverun Þorskafjarðar að vegamótum við Djúpafjörð m.a. um Teigsskóg. Kaflinn er um 10 km og verkinu á að vera lokið síðsumars á næsta ári.

„Það er verulega gleðilegt að skrifa undir þennan verksamning,“ sagði Bergþóra við undirskriftina. „Þetta er gríðarlegur góður áfangi að koma þessu af stað, en kaflinn um í Gufudalssveitinni hefur verið flöskuháls fyrir byggðarlögin á sunnanverðum Vestfjörðum.“ Óskar sagði að Borgarverk myndi hefjast handa þann 24. maí og að byrjað yrði á því að koma sér fyrir. „Okkur líst vel á þetta verk og búumst ekki við neinum deilum, ekki núna þegar búið er að taka ákvörðun um vegagerðina,“ sagði Óskar. „Ég á ekki von á öðru en góðri samvinnu við heimamenn. Þetta er spennandi verkefni.“

Borgarverk átti lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 1.235 m.kr. eða ríflega 86 prósent af kostnaðaráætlun. Sjá niðurstöðu útboðs .

Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 10,4 km kafla, milli stöðva 4.400 og 14.800.

Vegurinn er að alfarið byggður í nýju vegstæði en tengist núverandi Vestfjarðavegi í annan endann. Í verkinu felst einnig nýbygging Djúpadalsvegar á um 0,2 km kafla, milli stöðva 0 og 210. Vegurinn er alfarið byggður í nýju vegstæði en tengist nýjum Vestfjarðavegi í annan endann og nýjum Djúpadalsvegi sem er í byggingu í hinn endann.

Útlögn efra lags klæðingar skal lokið 15. ágúst 2023.

Verkinu skal að fullu lokið 15. október 2023.

Vegstæði um Teigsskóg

Vegstæði um Teigsskóg

Undirskrift vegagerð um Teigsskóg

Undirskrift vegagerð um Teigsskóg