Skrifað undir samning um byggingu brúa yfir Gufufjörð og Djúpafjörð
Vegagerðin hefur skrifað undir samning um verkið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, brýr á Djúpafjörð við Grónes og Gufufjörð.
Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri nýframkvæmda hjá LNS, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, skrifa undir samning um byggingu tveggja brúa yfir Djúpafjörð og Gufufjörð.
Verkið felur í sér byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Annars vegar 58 m langa brú yfir Djúpafjörð við Grónes og hins vegar um 130 m langa brú yfir Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 m bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar/rofvarnar.
Útboðið var auglýst 14. mars á þessu ári og tilboð opnuð 29. apríl. Ekki var samið við tvo lægstbjóðendur þar sem þeir töldust ekki uppfylla útboðsskilmála. Ákveðið var að ganga til samninga við Leonhard Nilsen & Sønner as, Noregi. Lægstbjóðandi kærði málið til úrskurðarnefndar útboðsmála og því töfðust samningar nokkuð. Úrskurðarnefndin veitti Vegagerðarinni leyfi til að halda áfram með samninga í lok september.
Það var svo í gær, 3. október að Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri nýframkvæmda hjá LNS, skrifuðu undir verksamning í húsnæði Vegagerðarinnar í Garðabæ. Samningsverðið hljóðar upp á 1,85 ma.kr sem er um 200 m.kr yfir áætluðum verktakakostnaði.
Verktakinn hefur strax undirbúning og byrjar fljótlega að vinna á svæðinu við að koma upp vinnubúðum. Samkvæmt samþykktri verkáætlun verða verklok 31. desember 2026.
Til stendur að bjóða út þriðju og síðustu brúna yfir Djúpafjörð um áramót, 250 metra langa stálbogabrú. Er það jafnframt síðasti áfanginn í vegagerð um Gufudalssveit. Áður er búið að brúa Þorskafjörð, leggja veg um Teigsskóg og gera tengivegi að sveitabæjum í Gufudal og Djúpadal, sem tímabundið eru hluti Vestfjarðavegar. Þá er langt komin gerð 3,6 kílómetra langra vegfyllinga yfir Gufufjörð og Djúpafjörð sem og gerð bráðabirgðabrúar vegna smíði varanlegu brúnna. Þegar öllum framkvæmdum verður lokið hefur leiðin um suðurfirði frá Reykjavík til Ísafjarðar styst um rúmlega tuttugu kílómetra.
Teikning af brú yfir Djúpafjörð.
Teikning af brú yfir Gufufjörð.
Kort sem sýnir áfanga við vegaframkvæmd í Gufudalssveit. Kortið er nokkurra ára gamalt en gefur ágæta mynd af veglínunni og framkvæmdunum.