11. desember 2025
Reykja­nesbraut­in öll orðin tvöföld frá Hafnar­firði til Reykja­nesbæjar

Reykjanesbrautin öll orðin tvöföld frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar

Innviðaráðherra og forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu formlega nýja tvöföldun á Reykjanesbraut milli  Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns, í dag, fimmtudaginn 11. desember. Var þetta eini kaflinn á Reykjanesbraut, frá Ásbraut í Hafnarfirði að Reykjanesbæ, sem átti eftir að breikka.

Bergþóra Þorkelsdóttir, Eyjólfur Ármannsson og Valdimar Víðisson klipptu á borða til að marka formlega opnun tvöföldunar Reykjanesbrautar.

Bergþóra Þorkelsdóttir, Eyjólfur Ármannsson og Valdimar Víðisson klipptu á borða til að marka formlega opnun tvöföldunar Reykjanesbrautar.

Um 80 manns mættu til að fylgjast með Eyjólfi Ármanssyni innviðaráðherra, Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, og Valdimari Víðissyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, klippa á borða til að marka formlega opnun vegarins. Mikil ánægja er með þennan áfanga enda ákveðinn endapunktur á breikkun brautarinnar sem hófst árið 2003.

Umferðin á Reykjanesbraut hefur aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi og því mikilvægt að aðskilja akstursstefnur á veginum til að auka öryggi vegfarenda. Meðaltalsumferð (árdagsumferð) á Reykjanesbrautinni árið 2024 var 21.500 bílar á dag.

Framkvæmdaverkið Reykjanesbraut (41) Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun felst í breikkun Reykjanesbrautar á 5,6 km kafla frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur.

Vegurinn var breikkaður í 2+2 aðskildar akreinar, mislægum vegamótum við álverið í Straumsvík, var breytt og útbúnar vegtengingar að Straumi og Álhellu. Byggð voru mislæg vegamót við Rauðamel og útbúnar vegtengingar að Straumsvíkurhöfn og dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur með undirgöngum. Einnig voru gerð undirgöng fyrir gangandi og hjólandi rétt austan við álverið sem og eftirlitsstaðir fyrir umferðareftirlit beggja megin Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík.

Tilboð í verkið voru opnuð í apríl 2023 og gengið til samninga við Íslenska aðalverktaka hf. í maí 2023.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sagði nokkur orð.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sagði nokkur orð.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hélt stutta tölu.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hélt stutta tölu.

Í verkinu fólust eftirfarandi vegaframkvæmdir:

  • Tvöföldun Reykjanesbrautar.
  • Eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut.
  • Aðreinar, fráreinar, rampar og hringtorg.
  • Vegtengingar frá Reykjanesbraut að Hraunavík og Straumi.
  • Álhella
  • Vegtengingar frá Álhellu að Gerði, Kapellu og dúfnakofum.
  • Göngu- og hjólastígar.
  • Regnvatnslagnir, brunnar, götulýsing, vegrið, umferðarmerki, yfirborðsmerkingar, lokunarbúnaður o.fl.

Í  verkinu fólst einnig bygging fjögurra undirganga, tveggja brúa og  einna undirganga úr stáli.

 

Eftirfarandi brýr og undirgöng eru innifalin í verkinu:

  • Akstursundirgöng við Hraunavíkurveg á móts við skólpdælustöð.
  • Undirgöng við Hraunavík fyrir gangandi og hjólandi.
  • Undirgöng við Straumsvík (lengd um 13 m og breikkuð fyrir nýja gönguleið).
  • Undirgöng við Straum fyrir gangandi og hjólandi.
  • Tvær brýr á tvöföldun Reykjanesbrautar við Rauðamel.

Einnig er um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja

  • Hafnarfjörður (vatnsveita, fráveita).
  • HS Veitur (raflagnir).
  • Míla (fjarskiptalagnir).
  • Orkufjarskipti og Ljósleiðarinn (fjarskiptalagnir).
  • Carbfix (ídráttarrör).
  • ÍSAL (endurnýjun lagna).

Verklok eru áætluð í júní 2026. Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og því er hægt að opna brautina fyrir umferð nú í desember. Einhver frágangur verður unninn í vetur og fram á vor.

Bergþóra, Eyjólfur og Valdimar með skæraberanum Nóa Ingvaldssyni og heiðursmönnunum Jóhannesi Ólafssyni og Sigurði Bergo Vignissyni.

Bergþóra, Eyjólfur og Valdimar með skæraberanum Nóa Ingvaldssyni og heiðursmönnunum Jóhannesi Ólafssyni og Sigurði Bergo Vignissyni.

Löng saga Reykjanesbrautar*

Reykjanesbraut hefur löngum gegnt mikilvægu hlutverki í samgöngum á Íslandi. Vegurinn mótaðist sem gömul þjóðleið í gegnum hraunið út á nesið í árþúsund. Vegurinn frá Hvaleyri í Hafnarfirði til Kúagerðis var nefndur Alfaraleið, vegurinn áfram til Voga var nefndur Almenningsvegur eða Menningsvegur og síðan tók við Stapagata til Njarðvíkur. Vörður vísuðu fólki veginn.

Árið 1899 urðu þau tímamót að lagt var fram frumvarp um að leggja vagnfæran veg milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur og ákvörðun um veginn var tekin árið 1903. Framkvæmdir hófust árið 1904. Vegagerðin hófst við sýslumannshúsið í Hafnarfirði. Árið 1907 náði vegurinn að Hvassahrauni og árið síðar að Stóru Vatnsleysu. Vorið 1909 var ákveðið að vegurinn skyldi ná alla leið til Keflavíkur og lauk þeirri vinnu árið 1912. Þar með var hægt að aka hestvögnum frá Reykjavík til Keflavíkur en fyrsta bifreiðin ók um veginn árið 1913.

Vegurinn hélst að mestu óbreyttur næstu áratugi og voru nokkur vandræði með viðhald hans.  Árið 1942 var vegurinn breikkaður og lagfærður af setuliði Bandaríkjamanna sem þá hafði aðsetur á Suðurnesjum. Árið 1958 var mjög þrýst á að leggja nýjan veg með bundnu slitlagi. Tilkoma sementsverksmiðjunnar á Akranesi varð til þess að vegamálastjóri lagði til að vegurinn yrði fyrsti steypti vegurinn hér á landi. Framkvæmdir hófust í lok árs 1960 við nýjan Suðurnesjaveg og lauk í október 1965. Þar með var Reykjanesbrautin  fyrsti steypti vegurinn í þjóðvegakerfi landsins. Eftir að vegurinn var tilbúinn var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar.

Ákveðið var að taka veggjald til að fjármagna framkvæmdina og var settur upp tollskúr þar sem gjaldið var greitt til ársins 1972, en í lok þess árs var gjaldtökunni hætt.

Með aukinni umferð jókst þrýstingur á að breikka Reykjanesbraut og aðskilja akstursstefnur til að auka öryggi vegfarenda. Á árunum 1987–1992 voru þingsályktunartillögur, um tvöföldun Reykjanesbrautar, fluttar sex sinnum á Alþingi.

Það var þó ekki fyrr en árið 2003 að framkvæmdir hófust við tvöföldun vegarins. Fyrri hluti tvöföldunar, frá Hvassahrauni að Strandarheiði, hófst í janúar 2003 og lauk í október 2004. Þetta voru um 12,1 km. Í framkvæmdinni fólst gerð nýrrar tveggja akreina akbrautar, gerð tvennra mislægra gatnamóta, færsla á Vatnsleysustrandavegi, gerð um 1 km malarvegar í átt að Höskuldar­völlum og lagfæring á öryggissvæði með núverandi akbraut.

Seinni hluti tvöföldunarinnar var frá Strandarheiði að Njarðvík. Verkið var boðið út í september 2005, framkvæmdir hófust árið 2006 og lauk síðla árs 2008. Lagðir voru 12,8 km frá enda fyrsta áfanga og að Fitjum í Njarðvík. Í verkinu fólst lagning vegar og bygging tveggja brúa.

Vígslan fór fram 19. október 2008 en þáverandi  samgönguráðherra, Kristján L. Möller, opnaði síðasta kaflann við Stapahverfi í Reykjanesbraut og vígði þar með tvöfalda Reykjanesbraut frá Hvassahrauni til Njarðvíkur.

Þá stóð enn eftir að tvöfalda brautina alla leið að Hafnarfirði. Vinnan hófst árið 2019 við breikkun milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar, um 3,2 km kafla. Auk þess tilheyrði verkinu gerð nýrrar vegbrúar yfir Strandgötu og undirganga á þessum stað, gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut við Ásland og Þorlákstún ásamt gerð umfangsmikilla hljóðvarna við Reykjanesbraut. Framkvæmdin var merkileg fyrir þær sakir að þessi vegkafli var sá fyrsti sem kláraðist af þeim sem tilheyra Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem gert var ráð fyrir legu Borgarlínu undir Reykjanesbrautina við Strandgötu í framtíðinni. Umferð var hleypt á þennan kafla í lok árs 2020 og verkinu formlega lokið 2021.

Þá stóð eftir vegurinn framhjá álverinu frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni sem nú er verið að ljúka. Þar með er lokið breikkun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar.

*Heimild um sögulegar staðreyndir: https://ferlir.is/saga-reykjanesbrautarinnar/