Nýir vitar á Miðleiðarskeri og Skarfakletti á Breiðafirði
Vitarnir á Miðleiðarskeri (1955) og Skarfakletti (1958) voru endurnýjaðir dagana 2. og 3. október. Búið er að reisa nýja vita, sem eru 3 metra stálmöstur með sólarrafhlöðu, rafgeymum og merkjagjafa.
Vitarnir á Miðleiðarskeri og Skarfakletti voru byggðir úr timbri og stáli um miðja síðustu öld en voru farnir að láta nokkuð á sjá og kominn tími til endurnýjunar. Upphaflega gekk ljósið í báðum vitunum fyrir gasi en árið 1985 voru þeir rafvæddir og hafa verið þannig síðan. Á síðasta ári var staðan orðin þannig að merkjagjafinn á báðum stöðum var bilaður en með lagni tókst að koma þeim báðum í gang aftur.
Í framhaldinu hófst vinna við að undirbúa að skipta báðum vitunum út, enda kominn tími á að endurnýja þá í takt við nútímatækni. Eftir þá vinnu standa nú tveir nýir vitar sem eru byggðir á 3 metra háu hvítu stálmastri, með sólarrafhlöðum, rafgeymum og merkjagjafa.
Verkefnið var unnið í góðri samvinnu Vegagerðarinnar og Tækjabúnaðar, með dyggri aðstoð áhafnar varðskipsins Þórs frá Landhelgisgæslunni. Verkið gekk mjög vel, enda veður með eindæmum gott á svæðinu.
Unnið að því að tengja merkið við aflgjafa.
Gamli Miðleiðarskersveitinn.
Flytja þurfti tækjabúnað út í Skarfaklett.
Gamli vitinn var úr timbri og stáli.
Vitarnir eru rækilega festir niður, enda allra veðra von á þessum slóðum.
Nýir vitar eru 3 m há stálmöstur, með sólarrafhlöðum, rafgeymum og merkjagafa.