17. nóvember 2022
Mikil­vægt að malbika Reykja­nesbraut­ina fyrir vetur­inn

Reykjanesbrautin lokuð að nýju kl. 19:00 fimmtudaginn 17. nóvember

Malbikunarframkvæmdir standa yfir á Reykjanesbrautinni á um þriggja kílómetra kafla við álverið í Straumsvík. Til stóð að malbika þennan kafla næsta sumar en þar sem hjólför og skemmdir höfðu myndast hraðar en ráð var fyrir gert var talið nauðsynlegt að ráðast í þessar framkvæmdir fyrir veturinn til að gæta fyllsta öryggis vegfarenda.

Í samráði við lögreglu, Brunavarnir Suðurnesja, sveitarfélög, Isavia og fleiri hagaðila var ákveðið að klára þessa framkvæmd í einni lokun frá klukkan 20:00 á miðvikudagskvöld og í sólarhring en hlýindi í veðri gera það mögulegt að malbika á þessum árstíma. Vegagerðin var í stöðugu sambandi við veðurfræðing við undirbúning verksins.

Veðurspá fyrir fimmtudagsmorgun var ekki hagstæð en ákveðið var að malbika eins lengi og hægt væri, en opna síðan fyrir umferð á Reykjanesbrautinni meðan veður gengi yfir.

Malbikunarframkvæmdir stóðu til klukkan 5:30 í morgun en þá hamlaði veður frekari vinnu. Ekki var hægt að opna veginn strax þar sem malbik þarf að kólna úr 140 °C niður fyrir 40 °C áður en umferð er hleypt á það, en það ferli tekur um 60-90 mínútur. Einnig tekur tíma fyrir verktakann að ganga frá og breyta merkingum. Því var vegurinn ekki opnaður fyrr en klukkan 7:00 þegar margir voru þegar lagðir af stað frá Suðurnesjum og til höfuðborgarinnar.

Mikilvægt er að klára að malbika þennan vegkafla sem fyrst og því hefur verið ákveðið að hefja malbikun að nýju í kvöld, klukkan 19. Vonir standa til að verkið klárist um hádegi á morgun, föstudag, en þó getur verið að það taki aðeins lengri tíma.

Vegurinn verður þá aftur lokaður fyrir umferð frá Grindavíkurvegi í átt að Reykjavík og hjáleið um Krýsuvíkurveg. Opið verður fyrir umferð til Voga. Eins og áður verður ávallt opið fyrir umferð frá Reykjavík í átt að flugvellinum.

Björgunarsveitarfólk og starfsfólk Vegagerðarinnar verður við lokunarstöðvar og helstu gatnamót. Þetta er gert til að auka öryggi og til að bregðast við ef hleypa þarf í gegn viðbragðsaðilum í forgangsakstri.

Umferðarlokanir gengu vel í nótt eftir því sem næst verður komist. Vegagerðin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem ökumenn verða fyrir vegna lokunarinnar en biður þá um að aka varlega og sýna tillitssemi.