Lokun á brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi
Brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, við Jökulsárlón, á Hringvegi 1-y3, verður lokað þriðjudagskvöldið 4. nóvember frá klukkan 19:00-01:00 á meðan gert verður við undirstöður brúarinnar. Viðbragðsaðilar sem þurfa í neyð að komnst yfir brúna á þessum tíma eru beðnir um um að hafa samband við 1777 eins fljótt og auðið er. Viðbragðsaðilum á tiltölulega léttum ökutækjum verður hleypt yfir brúna með 15-20 mínútna fyrirvara sem þarf til undirbúnings. Mikilvægt er að láta vinnuflokk vita sem fyrst svo hægt sé að hefja undirbúning á því að hleypa viðbragðsaðilum í gegn.
Vinnuflokkur Vegagerðarinnar hefur undanfarna daga unnið við að skipta út timburbríkum sem brotnuðu við ákeyrslu í sumar ásamt því að undirbúa leguskipti. Í lok júní vann vinnuflokkurinn við að skipta út timburgólfi við báða brúarenda.
Á þriðjudagskvöld stendur til að lyfta brúnni upp og skipta út legum beggja megin að vestanverðu. Legurnar eru orðnar gamlar og slitnar og brúin því á mikilli hreyfingu þegar ekið er yfir hana. Þá verður 4 metra löngum stálbita skipt út fyrir nýjan.
Á næstunni verður einnig farið í útskipti á legunum og stálbita að austanverðu ásamt því að halda áfram með viðgerð á bríkum.
Vegna þungatakmarkana hefur Vegagerðin farið fram á að vinnutæki sem flutt eru á milli landshluta á bílum með tengivagna, séu tekin af tengivögnunum og keyrð yfir brúna. Þetta fyrirkomulag hefur því miður í för með sér að skemmdir hafa orðið á timburbríkum beggja megin brúarinnar.
Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi er hengibrú, sem var tekin í notkun árið 1967, og er því orðin 58 ára gömul. Brúin er 108 metra löng og á henni eru þungatakmarkanir sem og breiddartakmarkanir.
Jökulsárlón er vinsæll ferðamannastaður og gangandi vegfarendum á brúnni hefur fjölgað mikið undanfarin misseri, ekki síst eftir að farið var að innheimta bílastæðagjöld.
Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og sýna þolinmæði á meðan viðgerðirnar fara fram.