Kynningarfundur um Ölfusárbrú
Vegagerðin boðar til opins kynningarfundar föstudaginn 18. febrúar kl. 10 um fyrirhugað útboð á samvinnuverkefninu Hringvegur um Ölfus. Verkefnið felur í sér færslu Hringvegar norður fyrir Selfoss með byggingu nýrrar brúar á Ölfusá við Efri Laugardælaeyju. Fundurinn verður í beinu streymi.
Nýr Hringvegur í gegnum Selfoss er hannaður sem 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum, sem tryggir aukið umferðaröryggi og greiðari akstur. Til framtíðar er gert ráð fyrir að mögulegt verði að breikka hann í 2+2 veg ef þörf krefur vegna aukinnar umferðar. Nýi vegurinn tengist hringtorgi við Biskupstungnabraut, sem er nú þegar í byggingu, og nær yfir 1,6 km kafla vestan Ölfusár.
Yfir Ölfusá verður reist 330 metra löng stagbrú með burðarturni á Efri-Laugardælaeyju. Austan árinnar liggur ný veglína, um 1,7 km löng, sem fer um Svarfhólsvöll og tengist núverandi Hringvegi rétt austan þéttbýlisins á Selfossi. Heildarlengd þessa nýja Hringvegarkafla er því um 3,7 kílómetrar, sem myndar mikilvæga og örugga tengingu um svæðið.
Auk þessa verður lagður nýr Laugardælavegur með tengingum við bæði Gaulverjabæjarveg og Austurveg á Selfossi. Þannig verður nýja samgöngukerfið bæði betri fyrir íbúa svæðisins og þau sem ferðast þar um.
Framkvæmdin felur einnig í sér byggingu tveggja undirganga fyrir gangandi vegfarendur og hestamenn, sem auka öryggi og aðgengi, auk sérstakra undirganga fyrir akandi umferð við Einholt, vestan Ölfusár.
Verkið nær yfir tvö sveitarfélög, annars vegar Árborg og hins vegar Flóahrepp, og fer framkvæmdin fram í góðu samráði við bæði sveitarfélögin. Ný veglína Hringvegar og brúin yfir Ölfusá eru í samræmi við gildandi aðalskipulag þessara sveitarfélaga. Mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lauk með áliti Skipulagsstofnunar árið 2011, og hefur undirbúningur og hönnun farið fram í samræmi við það.
Kynningarfundurinn verður í beinu streymi.
Fyrirspurnir má senda inn í gegnum síðuna slido.com með aðgangsorðinu #olfusarbru
Glærur af fundinum má finna hér.