26. september 2025
Hring­vegur­inn í sundur við Jökulsá í Lóni

Hringvegurinn í sundur við Jökulsá í Lóni

Hringvegurinn austan Hafnar í Hornafirði er lokaður eftir að vegurinn fór í sundur vegna vatnavaxta. Óljóst er hvenær hægt verður að ljúka viðgerð á skemmdinni. Vegurinn er í sundur á um 50 metra kafla.

Hringvegurinn er í sundur vestan Jökulsár í Lóni. Fyrir nokkrum árum var bætt við varnargarði til að stýra vatni betur undir brúna og eldri garður var hækkaður. Það hefur ekki dugað til og er eldri garðurinn í sundur á um 100 metra kafla og því mikið álag á veginn sem hefur rofnað á þessum 50 metra kafla.

Vegagerðarmenn eru á staðnum og búið að leita til verktaka um að fara í verkið. Óljóst er þó á þessari stundu hvað langan tíma tekur að gera við. Aðstæður eru erfiðar þar sem mikill vatnsagi er á svæðinu auk þess erfitt getur reynst að ná í efni til viðgerðar af sömu ástæðu, það er gríðarlega mikð vatn í öllum ám á Suðausturlandi.

Bíllinn sem sést á myndinni er yfirgefinn en vitað er að ökumaðurinn fékk far af staðnum og lögreglu hefur verið gert viðvart, ekki er ljóst hvað ökumaðurinn hugðist fyrir eða hversvegna hann lagði í vatnið í stað þess að snúa við.

Viðbót kl. 09:50. Búast má við áframhaldandi rigningu í dag sérstaklega upp til fjalla sem leiðir til áframhaldandi vatnavaxta, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Það rignir mikið á jökla, og þar sem það er hlýtt snjóar ekki, hiti er hár og því leysir gríðarlega mikið vatn. Það er því nokkuð ljóst að erfitt mun reynast að loka rofinu í veginum vestan Jökulsár í Lóni á skömmum tíma og gæti þurft að bíða eftir að þetta veður gangi niður og vatn taki að sjatna.

Hringvegur í sundur vestan Jökulsár í Lóni 26.9.2025

Hringvegur í sundur vestan Jökulsár í Lóni 26.9.2025