7. ágúst 2025
Hlýtur viður­kenn­ingu fyrir loka­verk­efni og er á leið­inni til Seattle

Hlýtur viðurkenningu fyrir lokaverkefni og er á leiðinni til Seattle

Árlega veitir Steinsteypufélag Íslands viðurkenningu til námsmanna á tækniskóla- eða háskólastigi er skila inn lokaverkefni sem annaðhvort styður við grunnrannsóknir á steinsteypu eða notkun hennar við íslenskar aðstæður. Ester María Eiríksdóttir, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur, nýútskrifuð úr Háskólanum í Reykjavík (HR), er einn þeirra nemenda sem hlaut viðurkenningu frá félaginu í vor.

Ester María útskrifaðist sem byggingartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í vor.

Ester María útskrifaðist sem byggingartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í vor.

Lokaverkefni hennar, „Skoðun á tengingum milli forsteyptra stöpuleininga,“ var unnið með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og í samræmi við stærra rannsóknarverkefni á vegum stofnunarinnar sem gengur út á að þróa forsteypta brú til notkunar á jarðskjálftasvæði.

Ester María er uppalin á Hofsósi en lauk húsasmíðanámi við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) árið 2021 og stúdentsprófi um leið. Eftir útskrift frá VMA sótti Ester nám í byggingartæknifræði við HR, þar sem hún lauk námi í febrúar á þessu ári. Aðspurð hvers vegna byggingartæknifræði hafi orðið fyrir valinu svarar Ester:

„Áhugasvið mitt hefur alltaf verið fjölbreytt, bæði innan verk- og tæknigreina og einnig utan þeirra. Ég stefndi aldrei sérstaklega á iðn- eða tækninám, en eftir húsasmíðanámið langaði mig að halda áfram í frekara námi og þá fannst mér liggja beinast við að skrá mig í byggingartæknifræði sem framhald af húsasmíðinni.“

Ester segir enn fremur frá því að hún búi yfir sterkri löngun til þess að læra nýja hluti og að læra þá vel. Hún var ánægð með þá jákvæðu liðsheild sem hún upplifði meðal námsmanna í byggingartæknifræði innan HR: „Það jafnast ekkert á við að leysa verkefni með góðu fólki.“

Þau Ester María og Ingi Sigurður Ólafsson hlutu bæði nemendaviðurkenningu Steinsteypufélagsins. Hér eru þau með formanni félagsins, Andra Jóni Sigurbjörnssyni.

Þau Ester María og Ingi Sigurður Ólafsson hlutu bæði nemendaviðurkenningu Steinsteypufélagsins. Hér eru þau með formanni félagsins, Andra Jóni Sigurbjörnssyni.

Ester vinnur um þessar mundir á verkfræðistofunni Stoð ehf. á Sauðárkróki, en mun flytja til Seattle næsta haust til að sækja meistaranám í byggingarverkfræði við Háskólann í Washington, U.W., þar sem hún mun m.a. taka þátt í verkefni með áherslu á jarðskjálftahönnun. Ester telur sig ekki hafa sagt skilið við brúarhönnun fyrir fullt og allt, en sýnir hins vegar áhuga á að spreyta sig á – og upplifa hin ólíku svið innan byggingartæknifræðinnar.

Tækifærið til þess að stunda nám í Bandaríkjunum barst henni þökk sé Valle-styrk U.W., en sá skólastyrkur er úthlutaður efnilegum verðandi meistaranemum í byggingartæknifræði, byggingarhönnun og öðrum verkfræðinámsgreinum sem búsettir eru á Norður- og Eystrasaltslöndum.

„Einn af leiðbeinendum mínum í lokaverkefninu, Ólafur Sveinn Haraldsson [forstöðumaður rannsóknadeildar Vegagerðarinnar] hafði sjálfur farið til U.W. í gegnum Valle-styrkinn. Hann hvatti mig til að sækja um, sem ég og gerði. Ég fékk bæði inngöngu í skólann og styrkinn, og síðan tók við umsóknarferli fyrir vegabréfsáritun sem stendur enn yfir.“

Ester býr um þessar mundir á æskuslóðum á Hofsósi. Þó að hún hafi búið bæði á Akureyri og í Reykjavík vegna skóla er auðsagt að búsetan í Seattle verði mestu viðbrigðin í hennar lífi. Ester er þrátt fyrir það tilbúin í upplifunina og hlakkar til þess að kynnast nýjum stað, sem og að takast á við nýjar áskoranir.

Álagsprófun á prófstykki með skúffutengingu. Stálbitar voru notaðir sem þvingur til þess að dreifa álaginu á prófstykkið yfir jafnari flöt.

Álagsprófun á prófstykki með skúffutengingu. Stálbitar voru notaðir sem þvingur til þess að dreifa álaginu á prófstykkið yfir jafnari flöt.

Prófstykkin tiltilbúin fyrir tilraunir: U-lykkjutenging að aftan, skúffutenging að framan.

Prófstykkin tiltilbúin fyrir tilraunir: U-lykkjutenging að aftan, skúffutenging að framan.

Eins og áður er nefnt var lokaverkefni Esterar unnið sem hluti af- og í samræmi við stærri rannsóknarverkefni sem Vegagerðin stendur fyrir sem tengjast hönnun á forsteyptum brúm til notkunar á jarðskjálftasvæðum. Endanlegt markmið er að þróa aðferð í brúarsmíði sem stuðlar að auðveldari samsetningu í byggingarframkvæmdum sem og auknu öryggi starfsmanna. Forsteyptar brýr eru í notkun úti í heimi, t.a.m. í Texasfylki í Bandaríkjunum, en hvergi hefur þessi byggingaraðferð verið notuð á virku jarðskjálftasvæði í líkingu við Ísland. Verkefnið hefur fengið úthlutun úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar síðustu árin og hafa nemendur við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík unnið að verkefnum tengdum málefninu síðustu ár.

„Ein af áskorununum við forsteyptar einingar eru tengingarnar á milli þeirra. Þær tengingar sem hafa verið notaðar hingað til eru „samsteyputengingar“ en þær byggjast á því að steypt er á milli þeirra á verkstað. Við gerð verkefnisins var leitast við að hanna tengingu sem væri jafn sterk en fljótlegri í framkvæmd.“

Hlutverk Esterar Maríu fól í sér upplýsingaöflun, hönnun á tengingum í prófstykkjum, útfærslu á burðarþolsreikningum, sem og smíði á tengingum og áframhaldandi prófanir í tilraunastofu, þar á meðal mælingar á styrkleika tengingarinnar með notkun vökvapressu til niðurbrots.

Lokaútgáfa tengingarinnar sem þróaðist út frá verkefninu var svokölluð „þurr tenging,“ sem gerir verktökum kleift að forsteypa í stað þess að þurfa að steypa á verkstað. Tenging þessi er skúffutenging, þar sem stálskúffa er á enda hverrar burðareiningar fyrir sig, þannig að við samsetningu þarf aðeins að leggja einingarnar saman og festa með stálboltum. Niðurstöðurnar á útreikningum og prófunum sem Ester framkvæmdi leiddu í ljós að með áframhaldandi þróunarvinnu og tilraunum gæti þurr, forsteypt tenging eins og þessi komið til með að taka við af þeim hefðbundnu tengingum sem nú eru í notkun við brúarsmíði á Íslandi.

Verkefnið talaði bæði til rannsóknarhæfileika Esterar sem og til hennar verklega bakgrunns. Aðspurð sagðist hún vera ánægð með að geta samnýtt fræðilega reynslu sem hún öðlaðist í tæknifræðinámi og verklega reynslu hennar sem húsasmiður.

Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar veitti fjárhagslegan styrk til verkefnisins, sem stóð m.a. undir efniskostnaði fyrir smíði á prófstykkjum og veitti aðstoð varðandi framkvæmd tilrauna. Ester vill koma þökkum sínum á framfæri gagnvart Vegagerðinni:

„Það var gott að fá grunnhugmyndina í hendurnar og að hafa svo smá „pressu“ við gerð verkefnisins. Það var gaman að fá tækifæri til að vinna að alvöru hagnýtu verkefni, hvort sem mín hugmynd verður einhvern tímann nýtt eða ekki, sem og að hafa verið partur af nýsköpun og leit að betri lausnum.“

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Teikning af U-lykkjutengingu sem notuð var við prufu

Teikning af U-lykkjutengingu sem notuð var við prufu

Teikning af skúffutengingu sem notuð var við prófun.

Teikning af skúffutengingu sem notuð var við prófun.