Frítt í Strætó og landsbyggðarstrætó 22. september
Á bíllausa daginn 22. september verður frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og með landsbyggðarstrætó. Bíllausi dagurinn er haldinn í tilefni af evrópsku samgönguvikunni sem er frá 16. – 22. september.
Strætó hefur um árabil tekið virkan þátt í samgönguvikunni með viðburðinum Bíllausi dagurinn, þar sem markmiðið er að hvetja fólk til að setja einkabílinn tímabundið til hliðar og prófa aðra ferðamáta. Í ár ákvað Vegagerðin að ganga skrefinu lengra og taka einnig þátt í verkefninu, enda rekur og ber hún ábyrgð á landsbyggðarstrætó. Með því hefur verið ákveðið að bjóða upp á ókeypis ferðir í Strætó á milli byggðarlaga í fyrsta skipti frá upphafi rekstrar þessara leiða.
Þetta er því einstakt og spennandi tækifæri fyrir íbúa og gesti til að stíga út úr daglegu rútínunni, leggja bílinn í smá frí og prófa þægilega, hagkvæma og vistvæna kosti almenningssamgangna. Slíkar aðgerðir geta hjálpað fólki að sjá hversu þægilegt það getur verið að ferðast án þess að aka sjálft, auk þess sem þær draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að betri loftgæðum. Markmiðið er að vekja áhuga á fjölbreyttari ferðavenjum, auka vitund um sjálfbærar samgöngur og sýna fram á að almenningssamgöngur geta verið raunhæfur og góður valkostur – ekki bara á Bíllausa deginum, heldur allt árið um kring.
Frítt verður í Strætó og landsbyggðarstrætó 22. september 2023.