14. ágúst 2025
Frá málbandi til tölvumúsar – Farið yfir starfs­feril Hauks Jóns­sonar

Frá málbandi til tölvumúsar – Farið yfir starfsferil Hauks Jónssonar

Haukur Jónsson vann í um hálfa öld hjá Vegagerðinni og á þeim tíma urðu meiri breytingar í vegagerð en hann hefði órað fyrir.

Haukur Jónsson.

Haukur Jónsson.

Þegar Haukur Jónsson hóf störf hjá Vegagerðinni sem sumarstarfmaður fimmtán ára gamall, var vegagerð á Íslandi töluvert annars eðlis en hún er í dag. Haukur lauk störfum hjá Vegagerðinni árið 2024 og hafði þá samanlagt unnið þar í rúma hálfa öld. Hann upplifði ótrúlegar breytingar á sínum ferli, byrjaði í mælingum fyrir uppbyggða malarvegi, stýrði lengi vel klæðingaflokkum sem komu bundnu slitlagi á vegi landsins og lauk ferlinum á því að stýra viðhalds- og  nýframkvæmdaverkum þar sem stór hluti vinnunnar fór fram gegnum tölvu og farsíma sem var aðeins útópískur draumur á upphafsárum hans hjá Vegagerðinni.

Við hittumst á fallegum vetrarmorgni í húsnæði Vegagerðarinnar á Akureyri. Hauki er fagnað af fyrrum samstarfsfólki sem kann vel við að sjá gamalkunnan vin og félaga. Við komum okkur fyrir í einu fundarherberginu og byrjum á byrjuninni. Hver er maðurinn? „Ég er Eyfirðingur að þremur fjórðu og einn fjórði Skagfirðingur,“ svarar Haukur glettinn en hann fæddist á Akureyri árið 1956 og hefur búið þar allar götur síðan. „Ég er fæddur á Brekkunni og hef átt þar heima mest alla ævi.“

Haukur er af Vegagerðarættum. „Faðir minn var Jón Haukur Sigurbjörnsson vélamaður, síðar skrifstofumaður og svo rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni. Hann lést árið 2010 en móðir mín er ný látin. Hún hét Halldóra Jónsdóttir og vann lengst af á saumastofu,“ upplýsir Haukur sem fyrstu árin ólst upp á Byggðaveginum en síðan í Stekkjargerði ásamt bróður sínum og systur.

„Á Byggðaveginum var gaman að alast upp því þar í kring var gríðarlegur krakkaskari og þaðan á ég ennþá góða vini. Þetta var einstaklega fjörugur staður enda víða verið að byggja hús svo það var nóg af stillönsum fyrir okkur krakkana að príla í,“ segir Haukur glaðlega. Ekki skemmdi landslagið en þar mátti finna fínar brekkur til að renna sér í á veturna. „Í þá daga var ekkert skipulagt starf fyrir krakka og maður þurfti að finna upp á eigin afþreyingu. Við vorum með frjálsíþróttamót á sumrin og þeir sem voru góðir á skíðum kenndu okkur hinum í brekkunni í Hrafnabjörgum.“

Á sumrin fór Haukur í sveit til móðurforeldra sinna og móðurbróður í Eyjafirðinum, á bæinn Samkomugerði. „Ég var með mikla sveitadellu og þar vildi ég helst vera. Mér fannst öll sveitaverkin skemmtileg og var látinn gera það sem ég réði við, sækja kýrnar og reka rollur. Síðasta sumarið mitt í sveit var ég 14 ára og fékk þá eitthvað að snúast á vélunum.“

Brúarflokkurinn á Hvammstanga að byggja brú á Grímsá í Borgarfirði.

Brúarflokkurinn á Hvammstanga að byggja brú á Grímsá í Borgarfirði.

Klæðingarflokkurinn á Akureyri tekur nýjan malardreifara í notkun og verkstjórinn Sigurjón Sigurðsson fylgist með.

Klæðingarflokkurinn á Akureyri tekur nýjan malardreifara í notkun og verkstjórinn Sigurjón Sigurðsson fylgist með.

Fjórir unglingar í vegavinnuskúr

Sumarið 1971, þegar Haukur var fimmtán ára, fékk hann sumarvinnu hjá Vegagerðinni sem var þá á Oddeyrinni. „Þá var verið að byggja núverandi húsnæði Vegagerðarinnar hér upp frá á Miðhúsaveginum. Ég fékk vinnu á birgðadeildinni ásamt 2-3 unglingum og við vorum oft sendir hingað upp eftir í ýmiss störf eins og að skafa spýtur og stafla timbri. Svo fékk ég að fara út í sveit með körlunum að  sinna ýmsum störfum. Þetta var fjölbreytt vinna með skemmtilegum vinnufélögum og enginn dagur eins,“ segir Haukur sem var í þessu tvö sumur. Það næsta fékk hann að vera hluti af vegavinnuflokki. „Það var skemmtileg reynsla. Við vorum fjórir unglingar saman í fjögurra manna skúr með steinolíuofni. Ég náði því ekki að vera í vegavinnutjaldi, en stundum var þó tjaldi slegið upp fyrir bílstjóra sem unnu fyrir flokkinn. Það var komin rafstöð á þessum tíma en hún var bara keyrð á daginn meðan verið var að elda.“ Á þessum tíma var enginn bað- eða salernisskúr, aðeins kamar. „Svo fékk maður volgt vatn í vaskafat hjá ráðskonunni að þvo sér upp úr,“ segir hann kíminn. Vinnudagurinn var langur, farið var út klukkan sjö á morgnana og unnið til sjö á kvöldin. Haukur lýsir því að vegavinnuflokkarnir hafi verið reknir á grunnmannskap en síðan hafi verið ráðinn aukamannskapur með vörubíla, jarðýtur og annan tækjabúnað. „Hver vinnuflokkur skipaði um 10 til 15 manns og það gefur að skilja að þetta skapaði gríðarlega mikla vinnu fyrir fólkið á svæðunum enda voru þetta alltaf heimamenn sem voru ráðnir til starfa í flokkunum og bættust þá við verkstjórar, flokksstjórar og nokkrir verkamenn,“ lýsir Haukur sem kynntist ógrynni af fólki á þessum tíma.

Og hver voru helstu verkefnin fyrir unglingana? „Við vorum mikið að setja niður ræsi og girða, eða standa upp á tipp og segja bílstjórunum til,“ svarar hann. En var þetta frumstæð vegagerð? „Já, talsvert öðruvísi en hún er í dag. Þarna var allt frumstæðara og undirbúningur minni. Jarðvegi næst veginum var yfirleitt ýtt upp í undirbygginguna og burðarlag sett yfir og síðan þunnt malarslitlag. Þá var efni ekki flutt langar leiðir nema í mjög litlum mæli, og bundið slitlag var ekki til.“

Hauki fannst sumarið í vegavinnuflokknum skemmtilegt og líflegt en næsta sumar gerðist hann hins vegar mælingamaður á hönnunardeildinni á Akureyri, hjá Guðmundi Heiðrekssyni. „Hópurinn af mælingamönnum var ansi stór, en okkur var skipt niður og oftast vorum við tveir eða þrír saman. Við fórum víða því svæðið náði frá Húnavatnssýslu austur í Þingeyjarsýslu og oft dvöldum við með vinnuflokkunum,“ segir Haukur en mælingar þess tíma voru nokkuð frumstæðar. „Hönnunin sjálf fór mikið til fram úti í mörkinni. Til að byrja með var ekki komin tölvutækni til að hnitreikna veglínur. Hönnuðir skoðuðu aðstæður á staðnum og teiknuðu inn veglínu á loftmyndir. Síðan fórum við með þessi gögn út í mörkina, málband og stikur til að sigta línur og búa til beygjur. Gerðar voru hæðarmælingar og teiknaður hæðarprófíll. Þá sátu eftir í landinu stikur á 20 metra fresti sem sýndu hvernig veglínan lægi og svo settum við út fyrir verkstjórana hvar kantarnir áttu að vera og hæðina á veginum. Merkingarnar voru smíðaðar úr tréstikum. Eftir þessum leiðbeiningum var vegurinn mótaður.“

Brúarflokkurinn í Vík breikkar brúna á Holtsá undir Eyjafjöllum. Jón Valmundsson verkstjóri er fremstur á myndinni.

Brúarflokkurinn í Vík breikkar brúna á Holtsá undir Eyjafjöllum. Jón Valmundsson verkstjóri er fremstur á myndinni.

Haukur er hér í dökkum jakka, þriðji frá vinstri. Þarna er á ferð stofnfundur Félags tæknifræðinga hjá Vegagerð ríkisins 15. ágúst 1985. Atkvæði um lög félagsins voru greidd með handauppréttingu. Á myndinni eru eftirtaldir tæknifræðingar: Auðunn Hálfdánarson Borgarnesi, Einar Gíslason Sauðárkróki, R-gnvaldur Gunnarsson Brúadeild Reykjavík, Haukur Jónsson Akureyri, Bjarni Jóhansen Borgarfirði, Hilmar Finnson Reyðarfirði, Kristján Kristjánsson Ísafirði, Sveinn Sveinsson Reyðarfirði og Jakob Hálfdánarson Brúardeild Reykjavík.

Haukur er hér í dökkum jakka, þriðji frá vinstri. Þarna er á ferð stofnfundur Félags tæknifræðinga hjá Vegagerð ríkisins 15. ágúst 1985. Atkvæði um lög félagsins voru greidd með handauppréttingu. Á myndinni eru eftirtaldir tæknifræðingar: Auðunn Hálfdánarson Borgarnesi, Einar Gíslason Sauðárkróki, R-gnvaldur Gunnarsson Brúadeild Reykjavík, Haukur Jónsson Akureyri, Bjarni Jóhansen Borgarfirði, Hilmar Finnson Reyðarfirði, Kristján Kristjánsson Ísafirði, Sveinn Sveinsson Reyðarfirði og Jakob Hálfdánarson Brúardeild Reykjavík.

Tæknifræði í Noregi

Haukur hóf skólagöngu sína í barnaskólanum á Akureyri, síðan lá leiðin í Gagnfræðaskólann og loks menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann varð stúdent árið 1976. „Ég var þokkalegur námsmaður en heldur námsleiður í menntaskóla,“ segir Haukur brosandi og ákvað því að vinna eitt ár í eftir útskrift. Mælingarnar hjá Vegagerðinni höfðu vakið áhuga hans á tæknifræði og því fór svo að hann sótti um nám í tæknifræði í Gjøvik í Noregi þar sem hann dvaldi næstu þrjú árin. „Við vorum nokkrir Íslendingar þarna, meðal annars Markús Karl Torfason og  Bjarni Johansen,  sem höfðu starfað sem mælingamenn og héldu síðan áfram að starfa hjá Vegagerðinni eftir námið.

Haukur vann í Noregi í öllum sumarfríum sínum, við byggingarvinnu og hjá norsku Vegagerðinni við mælingar í Guðbrandsdal, þar sem hann starfaði með Markúsi Karli.

„Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að starfa hjá Vegagerðinni þegar heim væri komið. En í lok sumars 1980 var ekki margt að hafa og ég fékk vinnu við mælingar og veghönnun hér á Akureyri,“ segir Haukur. Síðan fékk hann boð um að vinna sem umdæmistæknifræðingur á Reyðarfirði á móti Hilmari Finnssyni. „Þar var ég í eitt ár og lenti í allskonar brasi. Vinnudagarnir voru langir og margt að læra enda þekkti ég ekki allt of vel til á Austurlandi. En ég fékk góða aðstoð, sérstaklega frá Hilmari og Einari Þorvarðarsyni sem þá var umdæmisstjóri.“

Klæðingaflokkar að störfum í Hvalfirði árið 1982. Verkstjóri flokksins var Eiður Sveinsson.

Klæðingaflokkar að störfum í Hvalfirði árið 1982. Verkstjóri flokksins var Eiður Sveinsson.

Brúarflokkurinn á Hvammstanga byggir brú á Flókadalsá í Borgarfirði.

Brúarflokkurinn á Hvammstanga byggir brú á Flókadalsá í Borgarfirði.

Bylting að fá klæðingu

Vegakerfið á Íslandi var heldur bágborið á áttunda áratugnum. „Á þessum tíma snerist þetta aðallega um að byggja sterkari vegi og upp úr snjó, bundið slitlag þótti of dýrt og öryggismál voru lítið rædd,“ segir Haukur sem fannst alltaf gremjulegt í mælingavinnunni að sjá byggðan nýjan og góðan veg sem síðan var ómögulegt að keyra því hann var bara holóttur malavegur.

„Það var því alger bylting þegar klæðingin kom til sögunnar,“ segir hann en árið 1978 var verið að gera fyrstu tilraunirnar með klæðingar hér á landi. „Þá voru örfáir vegir með bundnu slitlagi, aðeins í kringum höfuðborgarsvæðið og helstu þéttbýli og svo var steyptur vegur til Keflavíkur.“

Þessi aðferð, klæðing eða Ottadekk eins og hún var kölluð í byrjun, kom frá Noregi en byggði á aðferð sem var þekkt um allan heim og hafði verið notuð í marga áratugi. Menn fundu fljótt að hún gæti nýst vel á Íslandi enda ódýr og fljótleg. Stofnaðir voru tveir klæðingaflokkar og keyptur búnaður fyrir þá.

Á ferð með klæðingaflokkum

Vorið 1982 var Hauki boðið að gerast einskonar verkefnastjóri yfir klæðingaflokkum Vegagerðarinnar. „Ákveðið var að leggja klæðingu á flesta nýja vegi en auk þess vegi með nægilegan styrk og þar sem kostnaður við undirbúning yrði lítill.  Leggja átti slitlag á sem flesta vegi eftir því sem peningarnir dugðu,“ segir Haukur. Flokkarnir voru tveir, annar á Akureyri undir stjórn Sigurjóns Sigurðssonar og hinn í Reykjavík undir stjórn Eiðs Sveinssonar. „Mitt hlutverk var að sjá um rekstur flokkanna, gera áætlanir um efni og tíma og gæðamál. Reynt var að komast yfir sem mest á sem stystum tíma enda aðeins hægt að vinna við klæðingar á sumrin.“

Stundum var kappið meira en forsjáin þegar kom að klæðingunum. Til að komast sem lengst var til dæmis ákveðið að leggja fjögurra metra breiða klæðingu á nokkra vegi þar sem umferð var lítil, meðal annars veginn yfir Skeiðarársand  sem reyndist ekki vel. „Svo mjó klæðing skapaði hættu þegar bílar mættust og var dýr í viðhaldi svo þessu var fljótlega hætt.“

Í hvorum klæðingaflokki voru tíu til tólf manns og við bættust vörubílstjórar á hverju svæði sem sáu um akstur á möl í klæðinguna. Það þýddi ekkert að setja upp vinnubúðir enda fóru menn hratt yfir. Þá þurfti að útvega svefnstaði og einhvern til að elda ofan í mannskapinn sem gat verið snúið að finna út úr því ekki var búið að finna upp farsíma eða internet til að létta sér verkið  „Oft var þetta gisting sem myndi ekki standast nútímakröfur, á dýnum og margir saman í herbergi, en flestum þótti þetta nú skemmtilegur tími og mórallinn góður,“ segir Haukur og minnist þess að íbúar hafi ávallt verið fegnir að sjá flokkinn koma.

Haukur ferðaðist mikið um landið þessi sumur. „Ég byrjaði á vorin að aka hringinn og skoðaði hvort endurnýja þyrfti eldri klæðingar og fór yfir með heimamönnum hvenær væri hægt að leggja því vegavinnuflokkar á hverju svæði  þurftu að undirbúa vegina fyrir klæðingu. Svo fóru verkin í gang í byrjun sumars með miklum látum,“ lýsir Haukur en fjölskylda hans sá ekki mikið af honum á sumrin og fríin oft tekin á öðrum tímum ársins.

Haukur hafði umsjón með klæðingaflokkunum, fyrst báðum en síðan Akureyrarflokknum til 2003 en þá var hann lagður niður. Sem dæmi um breytingar sem urðu á vegakerfinu á þessum árum var að árið 1980 voru um 360 km af bundnum slitlögum á Íslandi en tíu árum síðar voru vegir með bundnu slitlagi orðnir 2.260 km. Á þessum tíma höfðu nokkrir verktakar bæst við klæðingaflokka Vegagerðarinnar, þannig að afköstin voru mikil.

Brúarflokkur Hauks Karlssonar við Sandá í Öxarfirði. Á myndinni eru Jón Fornason, Haukur Karlsson og Jón Erlingur Jakobsson.

Brúarflokkur Hauks Karlssonar við Sandá í Öxarfirði. Á myndinni eru Jón Fornason, Haukur Karlsson og Jón Erlingur Jakobsson.

Frá fyrstu árum klæðinga, verið að leggja skammt austan við Höfn.

Frá fyrstu árum klæðinga, verið að leggja skammt austan við Höfn.

Upplifði bæði gamla og nýja tímann

Þegar Haukur byrjaði hjá Vegagerðinni eftir framhaldsnám var tölvutæknin rétt að ryðja sér til rúms. „Á seinni hluta áttunda áratugarins var farið að nota hnitareikninga og voru þeir reiknaðir í tölvu Háskóla Íslands sem þá fyllti heilt herbergi og hafði reiknigetu á við farsíma,“ segir hann glettinn og finnst skemmtilegt að hafa upplifað þennan tíma. „Maður nær í skottið á gamla tímanum,“ segir hann og man eftir þegar fyrsta tenging kom til Akureyrar við tölvu Vegagerðarinnar í Reykjavík, í kringum 1980. „Það var prentari með lyklaborði. Við hringdum með síma í Vegagerðartölvuna í Reykjavík og gátum látið hana reikna fyrir okkur veglínu, hæðarlegu o.fl. Þá stigum við fyrsta skrefið í átt að nútímanum. Við þetta breyttist vinnan heilan helling.“

Á níunda áratugnum urðu miklar breytingar á Vegagerðinni. „Tækninni fleygði fram en einnig var farið að huga að því að leggja niður vinnuflokkana smátt og smátt og fara í útboð með fleiri verk. Þetta var eðlileg þróun en ekki sársaukalaus fyrir þá sem höfðu unnið við þessi verk í sinni heimabyggð,“ segir Haukur en með aukinni tölvutækni var einfaldara að búa til gögn fyrir útboð og betur var hægt að kostnaðarmeta verkefnin. „Í dag eru allir vegir hannaðir með gervihnattar staðsetningu og verktakar fá gögn sem sett eru í vélstýringar í tækjunum og útlit og staðsetning mannvirkisins sem unnið er við sést á skjá. Ekki hafði maður hugmyndaflug á fyrstu árunum til að sjá þessa þróun fyrir sér.“

Skemmtilegt að vinna með brúarflokkum

Klæðingaflokkarnir voru starfandi lengi vel, eða til ársins 2003,  þó að dregið væri saman í annarri vinnuflokkastarfsemi stofnunarinnar. „Árið 1992 var kerfinu breytt þannig að stjórnun flokkanna færðist út í umdæmin. Þá var ég ekki lengur með allt landið undir heldur stýrði klæðingaflokknum hér fyrir norðan ásamt vegavinnuflokki, malaraflokki og einum brúarflokki. Ég hafði ekki komið að brúarvinnu áður og fannst skemmtilegt að víkka sjóndeildarhringinn. Í fyrstu vann ég með brúarflokki sem stjórnað var af gamalreyndum brúarsmið, Gísla Gíslasyni og var flokkurinn gerður út frá Sauðárkróki.

Svo breyttist skipulagið á ný og umsjónin ásamt flokkunum  færðust aftur undir framkvæmdadeild í Reykjavík  sem Rögnvaldur Gunnarsson stýrði.  Með tímanum tók Haukur við umsjón brúarflokksins á Hvammstanga sem var undir stjórn Guðmundar  Sigurðssonar, flokknum í Reykjavík sem Haukur Karlsson stýrði og flokknum í Vík sem Jón Valmundsson og síðar Sveinn Þórðarson stýrðu. „Allt voru þetta miklir reynsluboltar sem höfðu stýrt brúarvinnu í áratugi og mikill lærdómur fyrir mig að vinna með þeim.“ Á þessum árum byggðu brúarflokkarnir fjölmargar brýr auk þess sem unnið var að viðhaldi um allt land. Vegagerðin var með sérstaka brúardeild sem sá um hönnun og undirbúning og innan stofnunarinnar var því saman komin mikil þekking og reynsla í hönnun og byggingu brúa. „Ég var í þessum vinnuflokkarekstri allt til ársins 2008. Þá hafði vinnuflokkunum fækkað mikið. Í dag eru brúarflokkarnir tveir, einn á Hvammstanga og annar í Vík.“

Klæðingaflokkur að störfum við Hornafjörð árið 1992.

Klæðingaflokkur að störfum við Hornafjörð árið 1992.

Haukur er hér með Hreini Haraldssyni, þáverandi vegamálastjóra, árið 2010.

Haukur er hér með Hreini Haraldssyni, þáverandi vegamálastjóra, árið 2010.

Úr vinnuflokkum í nýframkvæmdir

Haukur tók við nýframkvæmdum á Norðaustursvæði árið 2008, en það svæði náði yfir Norðurland eystra og Austurland. „Það má segja að þetta hafi verið önnur hlið á sama peningi, ég sá um verkkaupahliðina í útboðsverkum, þ.e. útboðsmál, samninga við verktaka, eftirlit, umsjón og uppgjör. Það var mikið að gera enda mikil uppbygging í gangi á þessum árum á Norður- og Austurlandi. Um tíma var ég með 10 til 15 útboðsverk en þarna var verið að byggja sem dæmi veginn yfir Vopnafjarðarheiði og Vesturdal um 50 km, annað eins á Melrakkasléttu (Hófaskarðsleið), Dettifossveg og ótal önnur verk. Þessu fylgdi mikil ferðalög því ég mætti yfirleitt á verkfundi sem haldnir voru á verkstað á tveggja vikna fresti. Á deildinni voru síðan nokkrir eftirlitsmenn sem fylgdust meira með  verkefnunum og voru í stöðugum samskiptum við verktakana.“

Inntur eftir minnisstæðum verkefnum frá þessum tíma nefnir Haukur veginn upp úr Jökuldal milli Norðurlands og Austurlands. „Vegurinn lá utan í Skjöldólfsstaðahnúk í miklu brattlendi og bleytu og vegagerðin var einstaklega erfið. Þetta var strembið verk en afar gleðilegt þegar því lauk,“ segir Haukur og telur að minnisstæðustu verkin séu líklega þau sem séu erfiðust. „Það var alltaf gaman að sjá verkefnin klárast, hvort sem það var nýframkvæmd eða  viðhaldsverkefni. Maður sá muninn fyrir og eftir, og hversu miklu það myndi breyta fyrir vegfarendur.“

Síðustu tíu árin var Haukur með umsjónardeildina á Norðursvæði, sem náði yfir Norðurland vestra og eystra. Verkefnin voru þau sömu og áður nema viðhaldsverkefni bættust við nýframkvæmdirnar.

Viðhaldið verður mesta áskorunin

Í fyrra var komið að tímamótum. „Mér fannst dálítið erfið ákvörðun að hætta en ég þekkti marga sem höfðu tekið skrefið og hvöttu mig til þess því það væri sannarlega líf eftir Vegagerðina. Ég tók því eiginlega hálfgerða skyndiákvörðun og sé ekki eftir því. Það er gaman að geta gert allt það sem mann langar til.“

Haukur heldur þó í vissa rútínu. Hann vaknar alltaf snemma á morgnana  og heldur áfram að fara í sund á kvöldin líkt og hann hefur gert í áratugi. „Það er svo gott til að hreinsa hugann og slaka á fyrir svefninn.“

Haukur og Þóra, eiginkona hans til rúmlega fjörutíu ára, sinna sameiginlegum áhugamálum sem snúa að útiveru, göngum, skíðum og ferðalögum. Þá er Haukur með flugbakteríu en hann lærði svifflug árið 1971, er með einkaflugmannspróf og á hlut í flugvél. Þó hann sé að mestu hættur að fljúga er hann áfram viðriðinn flugsamfélagið á Akureyri. Þá eiga þau Þóra tvö börn og nokkur barnabörn sem búa í Reykjavík sem þau reyna að hitta sem oftast.

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja reynsluboltann hverja hann telji verða helstu áskorun Vegagerðarinnar á næstu árum. „Það er að takast á við þann gríðarlega mikla skort sem hefur verið á viðhaldi vega og vegamannvirkja almennt. Umferðarþunginn hefur aukist gríðarlega og hér eru víða illa farnir vegir eða að hruni komir. Margir þessir vegir voru lagðir klæðingu fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum og lítið sem ekkert viðhald fengið nema nýtt klæðingarlag. Eins og marg oft hefur komið fram eru gríðarleg verkefni framundan og meiri pening vantar í viðhald til að halda því í lagi og endurnýja sem búið er að gera.“

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.