Fagna bundnu slitlagi um Þingvallavatn
Sunnudaginn 24. ágúst standa sveitarfélögin Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur fyrir hátíð í tilefni af því að nú er komið slitlag á veginn hringinn í kringum Þingvallavatn. Áfanganum verður fagnað með borðaklippingu, tónlist og köku í Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Viðburðurinn er skipulagður í samstarfi við Vegagerðina, Landsvirkjun, Þjóðgarðinn á Þingvöllum og skátana á Úlfljótsvatni.
Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni.
Boðið verður upp á kaffi og köku á meðan birgðir endast.
Á Úlfljótsvatni verður boðið upp á fjölbreytta afþreyingu á vegum skátanna milli kl. 11:00 og 14:00. Gestir geta meðal annars prófað klifurvegg, bogfimi á útisvæði, siglt á bátum á bátatjörninni og tekið þátt í útieldun.
Margt fleira er um að vera í uppsveitum Árnessýslu þessa helgi. Á laugardeginum, 23. ágúst, fer fram fjölskylduhátíðin Grímsævintýri í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem verður markaður, bingó og fleiri skemtilegar uppákomur fyrir alla aldurshópa.
Beint frá býli dagurinn er haldinn hátíðlegur 24. ágúst í uppsveitum og mun Korngrís frá Laxárdal, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, opna býli sitt fyrir gestum í tilefni dagsins en dagurinn er nú haldinn þriðja árið í röð.
Allir eru hjartanlega velkomnir að koma og fagna þessum áfanga.
Framkvæmdin sem markar þau tímamót sem fagnað verður á sunnudaginn ber heitið Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss-Grafningsvegur neðri. Kaflinn er 1,33 km að lengd og er síðasti áfanginn í lagningu bundins slitlags á Grafningsveg efri sem liggur frá Þingvallavegi við Írufossvirkjun í suðri að Þingvallavegi við Heiðarbæ í norðri. Um framkvæmina sá VBF Mjölnir ehf. á Selfossi sem hefur unnið við vegagerðina frá því í maí og lauk henni nú í byrjun ágústmánaðar.
Fyrsti áfangi Grafningsvegar efri var byggður upp frá Nesjavöllum að Þingvallavegi við Heiðarbæ. Þetta voru um 12 kílómetrar sem unnið var við árin 1999 til 2000 en farið var í framkvæmdina í tengslum við kristnitökuhátíðina sem haldin var á Þingvöllum sumarið 2000. Fólk vildi enda vera vel undirbúið fyrir gestakomu í þjóðgarðinn, minnugt umferðarteppunar sem myndaðist á Lýðveldishátíðinni sex árum fyrr.
Næsti áfangi á Grafningsvegi neðri var gerður árin 2008 til 2009. Var það um 1,4 km kafli sem lá framhjá Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.
Á árunum 2018 til 2019 var síðan unnið við 5 km kafla frá Nesjavöllum að Hagavík og á árunum 2019-2020 var unnið við kaflann frá Hagavík að Úlfljótsvatni.
Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss-Grafningsvegur neðri.
Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss-Grafningsvegur neðri.
Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss-Grafningsvegur neðri.
Grafningsvegur efri (360), Ýrufoss-Grafningsvegur neðri.