23. nóvember 2022
Brýnt að bæta aðgengi að nær öllum biðstöðv­um stræt­isvagna á landsvísu

Skýrsla sýnir dökka mynd af stöðu mála

Skýrsla um ástand stoppistöðva á landsvísu, sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök , var kynnt á fundi í húsnæði Vegagerðarinnar á dögunum. Fundinn sátu fulltrúar ÖBÍ, Vegagerðarinnar, Innviðaráðuneytis, Borgarlínunnar og VSÓ ráðgjafar, auk þátttakenda í streymi.

Skýrsluna má nálgast hér.

Niðurstöður úttektarinnar sýna mjög dökka mynd af stöðu mála. Aðgengi og/eða yfirborð að 165 til 166 af alls 168 stoppistöðvum fyrir Strætó á landsvísu telst slæmt eða mjög slæmt. Víða eru biðstöðvar ekki annað en staur við veginn og alls eru 18 biðstöðvar sem enginn fötlunarhópur getur notað.

Fram kom á fundinum að Vegagerðin þekkir stöðu mála og tekur undir að úrbóta sé þörf.

„Engin sérstök fjárveiting er þó til staðar hjá Vegagerðinni til þessara úrbóta. Einnig þarf að vera sameiginlegur skilningur á því hver eigi og reki stöðvarnar. Staðan er sú að sumar hverjar eru á landi sveitarfélaga eða einkaaðila og eru því háðar þeirra leyfi,“ segir Halldór Jörgensson, forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni.

Sveitarfélög beðin um að gera ráð fyrir stöðvum

Að hans sögn hefur Vegagerðin biðlað til sveitarfélaga, þar sem stöðvar eru staðsettar, að taka tillit til þess við gerð skipulags og gera ráð fyrir stöðvum þar sem hægt sé að tryggja gott aðgengi.

Á fundinum kom einnig fram að það er niðurskurður í málaflokknum í fjármálaáætlun og því verði erfitt að uppfylla markmið stjórnvalda að 90% biðstöðva verði aðgengilegar árið 2024, auk þess sem skýrslan sýni verra ástand en talið var.

Hjá Vegagerðinni er unnið að heildarendurskoðun á almenningssamgöngum og greiningu á hvernig fólk nýtir sér þær. Halldór segir að aðgengi að þjónustu þurfi að vera eins og best verður á kosið, þar með talið fyrir fatlaða og hreyfihamlaða. „Það er mikilvægt að biðstöðvar séu rétt staðsettar og hannaðar og við erum komin af stað með þetta verkefni,“ segir hann.

 

 

Vegagerðin hefur biðlað til sveitarfélaga að gera ráð fyrir stöðvum þar sem gott aðgengi er tryggt.

Vegagerðin hefur biðlað til sveitarfélaga að gera ráð fyrir stöðvum þar sem gott aðgengi er tryggt.