9. nóvember 2025
Alþjóð­legur minn­ingar­dagur um fórnar­lömb umferðar­slysa hald­inn 16. nóvem­ber

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn 16. nóvember

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 16. nóvember. Þetta verður í fimmtánda sinn sem minningardagurinn er haldinn á Íslandi. Í ár verður kastljósinu sérstaklega beint að bílbeltanotkun, m.a. hjá ungum karlmönnum en kannanir hafa leitt í ljós nokkurt bakslag í notkun belta í þessum hópi.

 

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn 16. nóvember

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn 16. nóvember

Minningarathafnir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni og þar verður fórnarlamba umferðarslysa minnst með einnar mínútu þögn. Rótgróin minningarathöfn verður haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 14. Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra munu flytja ávörp en einnig verður sögð reynslusaga af afleiðingum umferðarslysa.

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum kl. 14 á minningardaginn. Hinsegin kórinn mun flytja lagið á minningarathöfninni í Fossvogi í ár.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa samtals 1632 einstaklingar látist í umferðinni (m.v. 30. október 2025). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Að baki minningardeginum standa innviðaráðuneytið, Samgöngustofa, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök. Þá taka fulltrúar ólíkra viðbragðsaðila þátt í minningarstundinni og farið er í heimsókn með kökur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.