10. september 2024
50 ár frá opnun Hring­vegar – upptökur af málþingi og ávörp­um

50 ár frá opnun Hringvegar – upptökur af málþingi og ávörpum

Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður stóðu fyrir málþingi og hátíðahöldum þann 30. ágúst 2024 í tilefni af 50 ára afmæli Hringvegarins. Í júlí 1974 var Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, vígð á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Bygging brúarinnar þótti verkfræðilegt þrekvirki á sínum tíma. Með henni var lokið við Hringveginn sem eftir það tengdi byggðirnar umhverfis Ísland í samfellda heild.

Málþingið, sem fram fór í félagsheimilinu Hofgarði að Hofi í Öræfum, var einstaklega vel sótt og vakti mikla athygli meðal íbúa og gesta. Um 120 manns mættu á viðburðinn, þar sem boðið var upp á dýrindis kjötsúpu áður en hlustað var á fróðleg og áhugaverð erindi frá fjölbreyttum frummælendum sem öll tengdust sögu og framtíð vegagerðar á svæðinu með einum eða öðrum hætti.

Fjöldi gesta sýndi málefninu áhuga og var andrúmsloftið á þinginu bæði vinalegt og uppfullt af fróðleik og samræðum. Frummælendur voru fjórir, hver með sínar einstöku nálganir og sjónarhorn á efnið.

Rögnvaldur Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, hóf málþingið með persónulegri og líflegri frásögn af minningum sínum tengdum framkvæmdunum við Skeiðarárbrú. Lýsingar hans á aðstæðum, aðbúnaði og andrúmslofti þess tíma veittu innsýn í það mikla verkefni sem brúargerðin var á sínum tíma.

Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, greindi frá þeim fjölmörgu áskorunum sem síbreytilegur Skeiðarársandur hefur skapað í gegnum tíðina fyrir vegagerðarmenn og innviðauppbyggingu. Hann beindi einnig sjónum sínum að framtíðinni og velti fyrir sér mögulegum lausnum og tækifærum sem gætu nýst til að bæta samgöngur á svæðinu í komandi áratugum.

Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, leiðsögumaður og fjallamennskukennari frá Svínafelli, las upp valda kafla úr ritverki Þórbergs Þórðarsonar, Vatnadagurinn mikli, sem lýsir ævintýralegri og viðburðaríkri ferð yfir hina illfærustu Skeiðará. Flutningur hennar var áhrifaríkur og veitti áheyrendum innsýn í bæði sögulega upplifun og náttúruöflin sem mótað hafa líf og samfélag í Öræfum.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og listamaður, lauk röð framsagna með líflegri og persónulegri ræðu um líf og störf föður síns, Helga Hallgrímssonar, sem gegndi lykilhlutverki við byggingu Skeiðarárbrúar á sínum tíma og síðar starfaði sem vegamálastjóri. Hallgrímur fléttaði saman minningar, húmor og virðingu í máli sínu og dró upp lifandi mynd af þeim tíma sem markaði upphaf nýrra tíma í samgöngum landsins.

Fundarstjóri málþingsins var Borgþór Arngrímsson, sem stýrði dagskránni af röggsemi og léttleika, og tryggði að hver frummælandi fengi sinn tíma og að umræður færu vel fram.

Að loknu málþinginu voru gestir hvattir til að ræða efni fundarins sín á milli, og myndaðist fjörugt og uppbyggilegt samtal um vegagerð, sögu, áskoranir og framtíðarsýn í samgöngumálum.

Hér að neðan má nálgast upptökur af öllum erindunum sem flutt voru á málþinginu og er fólki hvatt til að horfa á þau og miðla áfram þeim verðmæta fróðleik sem þar kom fram.

Þátttakendur í málþinginu. Sigurjón Andrésson, Jón S. Bjarnason harmonikuleikari, Bergþóra Þorkelsdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Hallgrímur Helgason, Guðmundur Valur Guðmundsson, Borgþór Arngrímsson og Rögnvaldur Gunnarsson.

Þátttakendur í málþinginu. Sigurjón Andrésson, Jón S. Bjarnason harmonikuleikari, Bergþóra Þorkelsdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Hallgrímur Helgason, Guðmundur Valur Guðmundsson, Borgþór Arngrímsson og Rögnvaldur Gunnarsson.

Um 120 manns mættu á málþingið í félagsheimilinu Hofgarði.

Um 120 manns mættu á málþingið í félagsheimilinu Hofgarði.

Hátíð á Skeiðarársandi

Að loknu málþinginu var haldið að vesturenda gömlu Skeiðarárbrúarinnar þar sem haldin var hátíð í tilefni af hálfrar aldar afmæli brúarinnar og Hringvegarins.

Fjögur fluttu ávörp við tilefnið. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, lýsti vel hátíðarhöldunum fyrir fimmtíu árum. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar fagnaði tímamótunum og hvatti ráðamenn áfram til dáða varðandi frekari samgöngubætur. Pálína Þorsteinsdóttir frá Svínafelli í Öræfum, dóttir Þorsteins Jóhannssonar (1918-1998), bónda, skálds og vegavinnuverkstjóra rifjaði upp æskuminningar frá þeim tíma sem Skeiðarárbrú var í byggingu. Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum í Öræfum fór með ljóð eftir Þorstein frá Svínafelli.

Að loknum ávörpum söng Öræfingakórinn nokkur lög og að því loknu var gengið upp á brúna með lúðrasveit Hornafjarðar í fararbroddi. Að lokum var boðið upp á hressingu undir brúnni og klifurfélag Öræfinga sýndi listir sínar.

Upptökur af ávörpunum er að finna hér að neðan.

Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður sá sameiginlega um hátíðahöldin.

Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður sá sameiginlega um hátíðahöldin.

Lúðrasveit Hornafjarðar spilaði og fór fyrir hópnum upp á gömlu Skeiðarárbrúna.

Lúðrasveit Hornafjarðar spilaði og fór fyrir hópnum upp á gömlu Skeiðarárbrúna.

Að lokum var boðið upp á hressingu undir brúnni og klifurfélag Öræfinga sýndi listir sínar.

Að lokum var boðið upp á hressingu undir brúnni og klifurfélag Öræfinga sýndi listir sínar.

Öræfingakórinn söng nokkur vel valin lög.

Öræfingakórinn söng nokkur vel valin lög.

Lúðrasveit Hornafjarðar spilaði og fór fyrir hópnum upp á gömlu Skeiðarárbrúna.

Lúðrasveit Hornafjarðar spilaði og fór fyrir hópnum upp á gömlu Skeiðarárbrúna.

Öræfingakórinn söng nokkur vel valin lög.

Öræfingakórinn söng nokkur vel valin lög.