Colas Ísland er sífellt að leita leiða til að minnka umhverfisáhrifin af sinni starfsemi. Eitt af meginhráefnum sem notað er í framleiðsluvörur fyrirtækisins er bik, en framleiðsla þess er gríðarlega orkufrek. Bik sem notað er í vegagerð er unnið úr jarðolíu þar sem bensín, dísill og aðrar léttolíur eru eimaðar frá þar til bikleifin í botninum situr eftir. Á Íslandi eru yfirleitt notaðar tvær týpur af biki, annars vegar „mjúkt“ bik með stungudýpt 160/220 og hins vegar „hart“ bik með stungudýpt 70/100. Hér eru orðin mjúkt og hart sett innan gæsalappa þar sem þetta er huglægt mat því það sem er kallað hart á Íslandi telst mjúkt á heimsvísu. Brýn þörf er á að breyta notkun á biki þar sem framboð á þessum biktýpum sem notaðar eru á Íslandi er sífellt að minnka vegna tæknibreytinga við framleiðslu. Til að bregðast við þessu er t.d. hægt að nota meira af endurunnu malbiki og/eða setja íblöndunarefni í bikið. Þessar aðgerðir minnka notkun á nýju biki og íblöndunarefni virka einnig til mýkingar á harðara biki. Ýmis íblöndunarefni hafa verið prófuð í heiminum en hér á landi hefur mest verið prófað lífbindiefni (e. bio-binders). Lífbindiefni geta verið hliðarafurð frá landbúnaði og skógrækt eða unnin úr grænmetisolíum. Þau eru með neikvætt kolefnisspor vegna þess að efnið hefur á líftíma sínum bundið meira kolefni en losnar við framleiðslu þess. Hér er ekki verið að tala um kolefnishlutleysingu eftir á með gróðursetningu eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Með því að blanda lífbindiefni í bik er því hægt að fá mýkra bik og lækka kolefnissporið á bikinu. Tilgangur verkefnisins er að þróa græna lausn fyrir vegagerð á Íslandi. Í þessu verkefni var sótt um styrk til að leggja malbik með lífbindiefni á umferðarþungan veg og um leið senda malbiksblöndurnar í hjólfarapróf, slitþolspróf og vatnsnæmipróf, til að rannsaka frammistöðu þess. Þetta var gert með það að markmiði að lækka kolefnisspor malbiks.
Björk Úlfarsdóttir, Sigurrós Arnardóttir
Lífbindiefni í malbik 2024