Um fimmtíuþúsund tonn af malbiki eru notuð í íslensku vegakerfi árlega og endurvinnsla á malbiki er því afar mikilvægt skref til þess að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Til þess að geta aukið hlutfall af endurunnu malbikskurli í malbiki er malbiksframleiðendum skylt að fylgja staðli ÍST EN 13108-8:2016. Til þessa hefur sjaldan reynt á það að öllu leiti, sé það gert hafa rannsóknir sem krafist er af staðlinum verið framkvæmdar erlendis, sökum aðstöðuleysis íslenskra malbiks rannsókna. Í þessu verkefni verða malbikssýni úr íslenska vegakerfinu prófuð með því að fylgja eftir staðlinum ÍST EN 13108-8 og athugað hvaða flöskuhálsar eða fyrirstöður gætu leynst í verkferlinu. Tilgangur verkefnisins er að auðvelda malbiksframleiðendum notkun á endurunnu malbiki og auka þar af leiðandi hlutfall þess í vegakerfi landsins. Í verkefninu verða allir verkþættirstaðalsins um endurvinnslu malbiks ÍST EN 13108-8:2016 framkvæmdir og skoðað hverjar helstu fyrirstöður og/eða flöskuhálsar þessara prófana eru fyrir malbiksiðnaðinn hérlendis. Verkefnið styður við nauðsynlega innviðauppbyggingu tækja, en ekki síður þeirra sérfræðiþekkingar sem nauðsynleg er til að framfylgja alþjóðlega viðurkenndu verkferli. Markmiðið er að í framhaldi af þessu verkefni verði hægt að framkvæma prófanir á endurunnu malbiki fyrir þá aðila sem vilja nýta hærra hlutfall á endurunnu malbiki í bundin slitlög skv. tilskyldum stöðlum að öllu leyti hérlendis. Með því er vonast til að endurvinnsla malbiks muni aukast í takt við stefnu stjórnvalda um innleiðingu á hringrásarhagkerfi og aðgerðaráætlun stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda frá mannvirkjaiðnaðinum.
Edda Sóley Þorsteinsdóttir, Elín Ásgeirsdóttir
nr_1800_1003_adferdir-vid-frekari-endurvinnslu-malbiks-endurheimt-biks-ur-malbikskurli-afangaskyrsla-1.pdf
Sækja skráAðferðir við frekari endurvinnslu malbiks – Endurheimt biks úr malbikskurli – Áfangaskýrsla 1